RC Hafnarfjordur

Founded Friday, November 22, 1946
Club 9803 - District 1360 - Charter number

I - Fyrsti áratugurinn

Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar var stofnaður 9. október 1946 og var hann sjöundi rótarýklúbburinn sem stofnaður var á landinu. Tólf ár voru þá liðin frá stofnun fyrsta klúbbsins, Rótarýklúbbs Reykjavíkur. Það kann að vekja nokkra furðu hvað langur tími leið frá því að Rótarýhreyfingin haslaði sér völl á landinu og þar til klúbbur var stofnaður í Hafnarfirði. Bærinn var á þessum árum þriðji stærsti kaupstaður landsins og hefði því mátt ætla að grundvöllur hefði verið fyrir klúbbstofnun nokkru fyrr.

Skýringanna á þessum drætti á klúbbstofnun í bænum má vafalaust rekja til viðhorfs og stefnumiða forvígismanna hreyfingarinnar. Frumkvöðlum Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi sem jafnframt voru forsvarsmenn Reykjavikurklúbbsins, var mjög í mun að breiða rótarýstarfið út um landið og því tóku þeir sér fyrir hendur að stofna klúbba hringinn í kringum land og enduðu á Keflavík áður en þeir komu að Hafnarfirðis. Að vísu var ekki grundvöllur fyrir klúbbstofnun á Austurlandi fyrr en töluvert seinna. En klúbbarnir á Ísafirði, Siglufirði, Akureyri og Húsavík voru stofnaðir á tímabilinu 1937 '39. Keflavíkurklúbburinn var svo stofnaður haustið 1945 og ári síðar kom röðin að Hafnarfirði.

Forvígismenn í Reykjavíkurklúbbnum sýndu mikinn áhuga og dugnað við stofnun klúbbanna úti á landi, lögðu á sig ferðalög, dvöl um skeið og fundarhöld. Sama máli gegnir um Rótarýklúbb Hafnarfjarðar. Það voru forustumenn úr Reykjavíkurklúbbnum sem undirbjuggu og skipulögðu stofnun klúbbsins. Að vísu hafssði hann þá sérstöðu að hann var fyrsti klúbburinn hér á landi sem stofnaður var eftir að íslenska rótarýumdæmið var sett á laggirnar. Það tók til starfa 1. júlí 1946. Áður höfðu íslensku klúbbarnir verið í danska rótarýumdæminu.

Stofnfundur Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar var haldinn á Hótel Þresti miðvikudaginn 9. október kl.20,30. Hinn nýkjörni umdæmisstjóri rótarýs, dr. Helgi Tómasson yfirlæknir, hafði unnið að undirbúningi fundarins og setti hann. Með dr. Helga „voru nokkrir félagar úr Rótarýklúbbi Reykjavíkur”, eins og segir í fundargerð, en þeir voru Carl Olsen, Helgi Elíasson, Torfi Hjartarson og Steingrímur Jónsson. Áttu þeir og fleiri eftir að veita klúbbstarfinu lið með erindaflutningi á næstu fundum og fræðslu um rótarý.

Umdæmisstjóri kvaddi Kristján Arinbjarnar héraðslækni til að stýra stofnfundinum og nefndi hann til fundarritara Benedikt Tómasson skólastjóra. Kristján hafði verið einn af stofnendum Rótarýklúbbs Ísafjarðar og félagi hans um árabil og var því öllum hnútum kunnugur.

Átján Hafnfirðingar höfðu játast að verða félagar í klúbbnum og teljast þeir stofnendur hans. Þeir voru þessir:

Ásgeir Stefánsson framkvæmdastjóri, Beinteinn Bjarnason útgerðarmaður, Benedikt Tómasson skólastjóri, Guðjón Guðjónsson skólastjóri, Ingólfur Flygenring forstjóri, Ingvar Gunnarsson kennari, Jón Gíslason útgerðarmaður, Jón Mathiesen kaupmaður, Júlíus Nýborg skipasmiður, Kristján Arinbjarnar héraðslæknir, Loftur Bjarnason útgerðarmaður, Ólafur Tryggvi Einarsson útgerðarmaður, Óskar Jónsson framkvæmdastjóri, Stefán Jónsson forstjóri, Þorvaldur Árnason skattstjóri.

Þessir fimmtán félagar voru mættir á stofnfundinum en þrír voru forfallaðir, þeir Bjarni Snæbjörnsson læknir, Garðar Þorsteinsson sóknarprestur og Valgarð Thoroddsen rafveitustjóri sem allir teljast stofnendur.

Aðeins einn þessara átján stofnenda er enn á lífi að fimmtíu árum liðnum, Stefán Jónsson forstjóri.

Áður en gengið var til nauðsynlegra fundarstarfa flutti umdæmisstjórinn, dr. Helgi Tómasson, erindi um rótarý, rakti sögu þess, markmið hreyfingar og störf og stefnu rótarýklúbba.

Að erindi dr. Helga loknu bar fundarstjóri fram tillögu um stofnun rótarýklúbbs í Hafnarfirði og var hún samþykkt samhljóða. Þá var samþykkt að sníða lög klúbbsins eftir lögum Rótarýklúbbs Reykjavíkur að svo miklu leyti sem við ætti og í samræmi við lög R.I. Klúbburinn skyldi heita Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar. Fundartími hans skyldi vera hvern þriðjudag kl. 15-16.15, á síðdegiskaffitíma.

Þá fór fram stjórnarkjör samkvæmt tilnefningu og voru þessir kosnir einróma: Kristján Arinbjarnar forseti, Ingólfur Flygenring varaforseti, Stefán Jónsson ritari, Benedikt Tómasson gjaldkeri, Þorvaldur Árnason stallari og Ásgeir G. Stefánsson meðstjórnandi. Meðstjórnandi hefur verið kosinn í stað fyrrverandi forseta sem lögum samkvæmt átti sæti í stjórninni.

Það vekur athygli þegar litið er á listann yfir stofnendur klúbbsins hvað margir þeirra eru tengdir útgerð, um þriðjungur þeirra að telja má. En til að allt færi að lögum og samrýmdist reglum rótarýs um fulltrúa hinna ýmsu starfsgreina voru félagarnir skilgreindir starfsmenn ólíkra greina innan sjávarútvegs. Þeir voru fulltrúar fyrir síldveiðar, togaraútgerð, vélbátarekstur, salt og kolaverslun, útflutning sjávarafurða, bæjarútgerð o.fl. Eins var annar læknirinn starfandi heimilislæknir og yfirlæknir á spítala en hinn héraðslæknir og þar með embættismaður. Annar skólastjórinn var fyrir barnafræðslu, hinn fyrir gagnfræðaskóla. En þegar litið er á hlut sjávarútvegs við stofnun R.H. má það ljóst vera hvað Hafnarfjörður var mikill útgerðarbær á þessu tímabili.

Þótt segja megi að athafnasemi og starfshættir klúbbsins hafi verið með venjulegum rótarýhætti fyrsta árið, þ.e. frá hausti 1946 til hausts 1947, gerðist þó ýmislegt sem til tíðinda má teljast. Í lok nóvember 1946 var breytt um fundardag og fundartíma og skyldu fundir framvegis haldnir í hádegi á föstudögum á Hótel Þresti. Og strax í byrjun ársins 1947 var samþykkt að breyta um fundarstað. Fyrsti fundur í Sjálfstæðishúsinu var haldinn 7. febrúar 1947. Þar sem um hádegisverðarfundi var að ræða og fundarstaður var ekki veitingahús var ráðin ráðskona til að annast matargerð og framreiðslu. Raunar voru þær tvær, Halldórs Sigurðardóttir og Soffía Sigurðardóttir. En árið 1953 varð Sólveig Eyjólfsdóttir matselja og sinnti hún þessu starfi þar til klúbburinn flutti fundi sína í veitingahúsið Skiphól haustið 1969 eða í 16 ár. Starf sitt rækti hún af miklum myndarskap og trúmennsku. Varð hún mikill mikill vinur rótarýs og virt af félögunum.

Um þetta leyti, eða 6. mars 1947, lést forseti klúbbsins, Kristján Arinbjarnar. Tók varaforseti, Ingólfur Flygenring, þá við störfum.

Á næstu fundum voru ýmis nauðsynleg klúbbmál rædd og samþykkt. Má þar nefna borðfána sem Ásgeir Júlíusson var fenginn til að teikna og samþykktur var 21. mars og merki forseta sem hann ber á fundum. Það var samþykkt 21. mars en á stofnfundi klúbbsins hafði forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur tilkynnt að þetta merki yrði minningargjöf klúbbsins um stofnun R.H.

Fullgildingarhátíð klúbbsins var haldin hátíðleg 19. apríl 1947. Sá klúbbnefnd um undirbúning og framkvæmd samkomunnar í samvinnu við stjórnina. Var klúbburinn nú orðinn fullgildur aðili að Rotary International.

Fyrsta stjórnarkosning í klúbbnum samkvæmt lögum fór fram á fundi 25. apríl 1947. Þar sem klúbburinn var aðeins rúmlega hálfs árs gamall þótti hæfa að meirihluti stjórnar sæti áfram næsta starfsár, þ.e. 1. júlí 1947 - 30. júní 1948. Forseti, ritari og stallari voru þeir sömu, Ingólfur Flygenring, Stefán Jónsson og Þorvaldur Árnason og sömuleiðis Ásgeir G. Stefánsson sem formsins vegna kallaðist nú fyrrverandi forseti. Varaforseti var kjörinn Loftur Bjarnason og gjaldkeri Ólafur Tr. Einarsson. Stjórnin skipaði þegar í nefndirnar fjórar, klúbbnefnd, starfanefnd, þjóðmálanefnd og alþjóðamálanefnd og mælti fyrir um hvenær hver þeirra ætti að annast fundarefni til áramóta.

Dagana 25.-27. apríl 1947 var fyrsta umdæmisþingið haldið í Reykjavík og mættu forseti og ritari Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar á þinginu. Fulltrúi R.I. á þinginu var dr. E. Bunin og buðu forseti og ritari R.H. honum til Hafnarfjarðar, sýndu honum bæinn og umhverfi og afhentu honum myndabók til minja um heimsóknina. - Má af þessu marka að rótarýfélagar í Hafnarfirði ræktu snemma það aðal rótarýs að efla kynni og vinarhug.

Árið 1948 var umdæmisþingið haldið á Akureyri og þangað fóru átta rótarýfélagar frá Hafnarfirði. Haustið 1950 var fullgildingarhátíð Rótarýklúbbs Sauðárkróks og formót og þangað norður fóru forseti og ritari og einn félagi að auki. Umdæmisstjórinn starfsárið 1951- 52, Kjartan J. Jóhannsson, fór þess á leit við R.H. að hann sæi um umdæmisþingið 21.-22. júní 1952 á Þingvöllum. Klúbburinn varð við þessum tilmælum og lagði sig fram um að það færi vel úr hendi. Sérstök nefnd sá um undirbúning og framkvæmd ásamt stjórninni og tóku margir félagar þátt í þinghaldinu, ekki síst lokahófinu. Stefán Júlíusson flutti erindi á þinginu um kynni sín af rótarý í Bandaríkjunum en hann dvaldist í Íþöku í New Yorkríki við nám skólaárið 195l-52 og sótti reglulega fundi í rótarýklúbbum þar. Jafnframt var honum boðið að flytja erindi um Ísland á fjölmennu umdæmisþingi í Utica í New Yorkríki.

Vikulegir rótarýfundir árið um kring leggja allmiklar skyldur og ábyrgð á herðar félögunum. Eigi að síður var fljótt farið að efna til hátíðafunda og samkomuhalds utan hinna reglubundnu vikufunda. Ber þá fyrst að nefna árshátíðir. Fyrsta árshátíð R.H. var haldin á venjulegum fundarstað 8. nóvember 1947, svo til réttu ári eftir stofnun klúbbsins. Sérstök nefnd var kosin til að sjá um samkomuna. Þátttakendur með konum og öðrum gestum voru um fjörutíu. Umdæmisstjóra og frú var boðið. Rótarýerindi flutti forsetinn, Ingólfur Flygenring, tveir félaganna, Beinteinn Bjarnason og sr. Garðar Þorsteinsson sungu nokkra glunta og þriðji félaginn, Valgarð Thoroddsen, lék með á píanó. Einn gesturinn, Magnús Lýðsson, spilaði fyrir almennum söng og dansi eftir borðhald. Var hátíðin hin ánægjulegasta.

Þar sem rótarýfundir eru vikulega og fundir því nálægt 50 á ári falla afmælisdagar og fundir merktir hundraði næstum saman á tveggja ára fresti. Þannig voru hátíðabrigði á 200. fundinum sem haldinn var að kvöldi til 27. október 1950. Rótarýfélögum á Selfossi hafði verið boðið til fundarins og komu þeir 15 talsins. Þeir komu Krýsuvíkurleiðina og fóru nokkrir félagar úr R.H. til móts við þá í Krýsuvík, buðu til kaffidrykkju og sýndu þeim staðinn. Þegar til bæjarins kom var gestunum sýnd ýmis fyrirtæki og stofnanir áður en sest var að borðhaldi á fundarstað kl.19.30. Nær allir félagar R.H. voru mættir og 7 gestir auk Selfyssinga, sumir rótarýfélagar úr öðrum klúbbum; voru alls um 50 manns á samkomunni. Eftir borðhald, ávörp og ræður, var dvalið við söng,, rabb og sögur fram yfir miðnætti. Þá lauk fundinum með kaffidrykkju og héldu félagar og gestir ánægðir til síns heima.

Á 300. fundi var efnt til mikillar hátíðar. Hann var haldinn í samkomusal verksmiðjunnar Rafha föstudaginn 10. október 1952 að kvöldi til og var jafnframt 6 ára afmælishátíð klúbbsins. Var konum félaga boðið til hátíðarinnar. Allir félagar nema einn, 25 talsins, voru mættir, flestir með konu og voru Hafnfirðingar alls 55. Félögum úr Rótarýklúbbi Akraness hafði verið boðið að sækja fundinn ásamt konum og voru þau 35 á ferð. Fimm gestir voru úr Reykjavík.

Alls voru á þessum hátíðarfundi 10. október 1952 95 manns, gleði mikil og fjörugar ræður, almennur söngur og dans stiginn til miðnættis. Þá var kveðjukaffi.

Akurnesingar voru með þessari heimsókn að gjalda komu 18 félaga úr R.H. á fund R.A. 8. ágúst þá um sumarið. Fóru þeir saman í hóp upp á Skaga og höfðu viðdvöl í Hvalfirði og nutu þar gestrisni félaga síns, Lofts Bjarnasonar og frúar hans, Sólveigar. Var í þeirri för rætt um boð Akurnesinga á 300. fund R.H. þá um haustið.

Forseti R.A., Ragnar Jóhannesson orti sérstakan rótarýsöng í tilefni heimsóknar R.H. og var hann einnig sunginn á 300. fundinum.

Einnig var gerður dagamunur á 400. fundi 15. okt. 1954, þó að hann væri á fundarstað klúbbsins. Þetta var kvöldfundur og konum boðið. Kristinn Hallsson var fenginn til að syngja nokkur lög og Fritz Weishappel lék með. Magnús Már Lárusson prófessor flutti athyglisvert erindi í skemmtilegum dúr. Síðan var spiluð félagsvist fram yfir miðnætti og kaffi drukkið að lokum.

Á 500. fundi var mikill dagamunur gerður enda 10 ára afmælishátíð um leið. Fundurinn var haldinn í Sjálfstæðishúsinu laugardaginn 13. október 1956 og hófst kl. 7 e.h. Þátttakendur í hátíðinni voru um 70, konur flestra félaga og aðkomugestir, stofnandi klúbbsins, dr. Helgi Tómasson og frú, umdæmisstjórinn, dr. Árni Árnason frá Akranesi, og einir þrír fulltrúar annarra klúbba, frá Reykjavík, Sauðárkróki og Keflavík.

Forseti klúbbsins og rótarýgestir fluttu ávörp og ræður og röktu sögu rótarýs og stefnumið, skiluðu kveðjum og óskum. Til tíðinda bar að frú Astrid Þorsteinsson kvaddi sér hljóðs fyrir hönd kvenna rótarýfélaga og færði klúbbnum fundarhamar að gjöf. Gat hún þess að heima hefðu karlarnir ekki bareflið en hér gætu þeir nú beitt því, þótt það skyldi í hófi gert! Forseti, Ólafur Tr. Einarsson, þakkaði og gat þess að hann hefði lagt drög að fundarklukku fyrir klúbbinn sem þola ættu högg hamarsins og væri hún afmælisgjöf sín þótt afhending tefðist fram undir áramótin.

Til samkomunnar var kominn Valur Gíslason leikari og skemmti með sögum og frásögnum. Eftir borðhald var stiginn dans til klukkan 4 og spilaði Róbert Arnfinnsson á harmoniku fyrir dansi ásamt félaga sínum. Drukkið var kaffi að lokum.

Hér að framan hefur verið sagt allgjörla frá uppbyggingu klúbbsins og innra starfi, fundum og hátíðum fyrsta áratuginn. Er auðséð að félagar hafa gert sér far um að rækja sannan rótarýanda með kynnum við aðra klúbba og móttöku gesta á viðeigandi og virðulegan hátt. Getið er um ferðir félaga á fund á Selfossi, Akranesi og í Keflavík og félagar af þessum stöðum guldu heimsóknina á sama hátt. Þegar forseti R.I. hafði viðdvöl í Reykjavík og var á fundi í R.R. 27.7. 1951 fóru 10 félagar úr R.H. með konum á þann fund. Sömuleiðis minntust klúbbarnir í Reykjavík og Hafnarfirði sameiginlega 50 ára afmælis Rótarýs á fundi í Reykjavík 23. febrúar 1955 og lagði R.H. þar til bæði annan stjórnanda og fyrirlesara.

Eins og kunnugt er var rótarý á þessu tímabili hreinræktaður karlafélagsskapur og konur voru sjaldgæfir gestir á fundum en aldrei var amast við konum í R.H. Á þessum fyrstu árum er sagt frá tveimur konum sem fluttu erindi á fundum. Félagar fóru fljótlega að bjóða konum sínum til funda og hátíða og oftar en einu sinni fóru þeir með konum í hóp í Þjóðleikhúsið.

Strax á fyrstu árunum var farið að færa fund til kvölds nálægt jólum og var konum þá boðið til veislu. Þessi jólafundur kallaðist milli félaga „konufundur”. Var þá sérstaklega minnst jólanna með hugvekju og sálmasöng. Þessi hátíðabrigði hafa haldist alla tíð frá fyrstu árum. Árið 1951, 28. desember, er fyrst minnst á sona- og dætrafund í fundargerð en áður hafði börnum og barnabörnum félaga verið boðið til sérstaks fundar í klúbbnum. Var hann þá sniðinn við þeirra hæfi þótt barnahjörðin væri oft á mismunandi aldursskeiði. Þessi siður, að bjóða börnum og barnabörnum á hátíðarfund milli jóla- og nýárs eða rétt um áramótin, hefur haldist síðan. Vert er að gert þess að eftir að Árni Þorsteins- son kom í klúbbinn árið 1950 bauð hann gjarnan konum og börnum til kvikmyndasýningar eftir þessa fundi.

Segja má að félagar í R.H. hafi lagt sig fram um að kynna fjölskyldu sinni tilgang og hætti rótarýs þótt karlaveldi væri. Sömuleiðis gerðu þeir sér far um að kynnast öðrum rótarýfélögum á landinu.

En saga fyrsta áratugar klúbbsins greinir ekki síður frá því að félagarnir voru áfram um að verða samfélaginu, bænum, til gagns og hagsbóta. Þeir vildu að þess sæi stað að rótarýklúbbur væri starfandi í bænum. Á 10. fundi klúbbsins lagði Júlíus Nýborg til að þeim nemendum í skólum bæjarins sem hæsta einkunn hlytu á burtfararprófi yrði veitt viðurkenning af klúbbsins hálfu. Tillaga þessi var samþykkt á fundi 3. janúar 1947. Og á klúbbfundi um vorið, 27. júní, voru gestir þrír skólanemendur sem hæstu einkunn höfðu hlotið úr þremur skólum bæjarins á lokaprófi, þ.e. úr barnaskólanum, iðnskólanum og Flensborg. Þar sem stúlkan úr barnaskólanum var enn á barnsaldri var föður hennar boðið með henni á fundinn. Tók hann til máls og þakkaði þessa sérstöku gerð klúbbsins. Var þetta hin ánægjulegasta nýbreytni á fundinum.

Nemendurnir fengu bók í viðurkenningarskyni fyrir frammistöðu sína.

Þessi verðlaunaveiting til úrvalsnemenda skólanna í bænum hefur verið liður í starfsemi klúbbsins í fimmtíu árin. Fyrstu árin var þessi þáttur ekki í föstu formi, nemendur komu ekki á fundi til að veita verðlaununum viðtöku þó að stöku sinnum væri einhver þeirra gestur á fundi. Bókunum var annars yfirleitt komið til skólanna fyrir skólauppsögn með kveðju frá klúbbnum.

En árið 1959 var brotið blað í þessum efnum. Þá var nemendum og skólastjórum boðið til hádegisverðar og fundar föstudaginn 12. júní. Forsetinn ávarpaði gestina og sagði að allt frá stofnun klúbbsins fyrir 12 árum hefði skólanemendum verið veitt verðlaun af klúbbsins hálfu og hér væri staðið að þessu með sérstökum hætti, að bjóða þeim og skólastjórum á fund. Síðan afhenti forseti bækurnar en skólastjórarnir tóku allir til máls og þökkuðu þetta framtak klúbbsins. Næsta ár, 10. júlí 1960, var þessi athöfn með líku sniði nema hvað nú bættust í hóp skólastjóra tvær nunnur sem voru í forsvari fyrir katólska skólann í Hafnarfirði. Ekki máttu þær systurnar borða með rótarýkörlum svo að þær mauluðu konfekt í fremri sal meðan á borðhaldi stóð. Önnur þeirra, systir M. Monica, tók við verðlaunabók úr hendi forseta þar sem nemandi hennar var utanbæjar. Varaforseti, Stefán Júlíusson, kynnti nemendur fyrir félögum og starf og stefnu rótarýs fyrir gestum - og svo hefur verið árlega síðan hafi hann verið í bænum. Þessi nemenda - og skólastjórafundur R.H. hefur verið árlegur viðburður síðan 1959 eða í 38 ár. Fyrstu árin voru skólarnir þrír, á árinu 1996 eru þeir sjö.

Annað samfélagsverkefni R.H. sem tekið var föstum tökum var trjárækt og fegrun bæjarins. Á tveimur fundum í febrúar 1951 gerðu þeir Kristinn J. Magnússon og Júlíus Nýborg fegrun bæjarins að umræðuefni, einkum svæðin kringum Hamarinn og Lækinn. Var málinu vísað til stjórnarinnar. Á stjórnarfundi 3. mars 1951 var samþykkt að leggja fyrir klúbbfund eftirfarandi tillögu:

„Rótarýklúbbur Hafnarfjarðar samþykkir að beita sér fyrir stofnun fegrunarfélags fyrir Hafnarfjarðarkaupstað er hafi það hlutverk með höndum að vinna að fegrun bæjarins og efla snyrtilega umgengni í bænum. Ákveður fundurinn að kjósa 3 menn er vinni að því að fá önnur félagasamtök í bænum til samstarfs um málið og sjá síðan um að haldinn verði almennur borgarafundur er hrindi stofnun félagsins í framkvæmd.”

Allt þetta gekk eftir. Klúbbfundur samþykkti tillöguna, kaus þá Kristinn J. Magnússon, Þorvald Árnason og Stefán Jónsson í nefndina og þeir ýttu við öðrum félögum í bænum. Fegrunarfélag Hafnarfjarðar var stofnað 22. apríl 1951 og var Kristinn J. Magnússon fyrsti formaður þess en alls voru fimm stjórnarmenn af sjö rótarýfélagar. Og l. desember 1951 hélt Fegrunarfélagið almennan borgarafund í Bæjarbíó. Lét félagið mikið til sín taka í bænum næstu árin og allt þar til sett var á laggirnar sérstök fegrunarnefnd bæjarins árið 1966.

En R.H. lét ekki sitt eftir liggja í þessum efnum þótt fegrunarfélag væri stofnað. Laugardaginn 15. júní 1951 hafði Júlíus Nýborg forgöngu um gróðursetningu trjáplantna vestan undir Hamrinum og stóðu þar margir rótarýfélagar að verki ásamt fjölskyldufólki. Þessari gróðursetningu var haldið áfram næstu árin eins og sjá má af verkunum.

Mesta framtak R.H. í fegrun miðbæjarins og snyrtingu var lagfæring og umbreyting á tveimur malarsvæðum sunnan apóteks og vestan verslunar Einars Þorgilssonar. Þau höfðu áður verið stakkstæði eða fiskþurrkunarreitir. Nú tók R.H. sér fyrir hendur að breyta malarreitunum í grasflatir. Þetta var vorið 1954 og hafði Valgarð Thoroddsen forgöngu um framkvæmdir en hann var nú formaður Fegrunarfélagsins. Skyldi verkinu vera lokið fyrir 17. júní þetta vor og stóðst það. Fyrirtæki undir forsjá rótarýfélaga og þeir sjálfir styrktu þessar framkvæmdir, lánuðu ökutæki og verkfæri. Mest um vert var þó að þeir gengu sjálfir í verkin, mættu með skóflu í hendi á staðnum og spöruðu sig ekki í sjálfboðavinnunni. Vegfarendur á Strandgötu ráku upp stór augu þegar þeir sáu þar ýmsa borgara í moldarverkum sem betur voru þekktir við önnur störf. Á syðri grasflötinni var komið fyrir líkani af kunnri skútu frá byrjun aldar, kútter Surprise. Setti það svip á þessa framkvæmd rótarýmanna. Setja má að enn sjáist árangurinn af þessu framtaki rótarýoklúbbsins vorið 1954.

Valgarð Thoroddsen gerði grein fyrir kostnaði við þessar framkvæmdir. Kostnaður alls var um 45,000 kr.,ógr. 5000 kr..sem klúbburinn var í raun ábyrgur fyrir. Hét hann á menn að bregðast vel við þeim skyldum. Þessu lauk þannig að klúbburinn samþykkti að greiða 1000 kr. af skuldinni gegn framlagi bæjar og annarra, 4.000 kr. Þannig lauk þessu máli.

Gróðursetning trjáplantna hefur verið frá árinu 1951 stöðugt viðfangsefni R.H. eins og alkunnugt er. Þess ber þó að geta sérstaklega að rótarýklúbburinn í Örstavík í Noregi sendi R.H. um 5000 trjáplöntur að gjöf vorið 1955. Þessu fór fram næstu árin og gat klúbburinn gefið skóræktarfélagi og öðrum klúbbum hluta af þessum plöntusendingum. Upphaf þessa máls var á þá lund að sonur félaga í R.H., Gunnar Finnbogason Jónssonar póstmeistara, var við skógræktarnám í Örstavik og tók klúbburinn þar hann í eins konar fóstur. Myndaðist traust vináttusamband milli klúbbanna og hélst um skeið. Forseti rótarýklúbbsins í Örstavík, M. Djuvstein og frú, konu í heimsókn til Íslands vorið 1955 og voru á rótarýfundi í Hafnarfirði. Var þeim að sjálfsögðu tekið með kostum og kynjum og spöruðu félagar R.H. í engu gestrisnina. Annar rótarýgestur frá Örstavík kom síðar í heimsókn.

Í lok fyrsta áratugar á starfsferli R.H. voru félagar 34.

Alls höfðu þá 38 gerst rótarýfélagar, 3 höfðu sagt sig úr klúbbnum, 1 hafði látist. Undir lok þessa tímabils urðu þau merku tímamót í sögu klúbbsins að hann lagði rótarýumdæminu á Íslandi til umdæmisstjóra. Þorvaldur Árnason var sjöundi umdæmisstjórinn, starfsárið 1954-55. Hann var einn af stofnendum klúbbsins, mjög ötull og starfssamur félagi og hafði gegnt stöðu stallara, ritara og forseta í klúbbnum. Þorvaldur var áhugasamur umdæmisstjóri og trúr starfi rótarýs. Hann andaðist árið 1958.

II - Annar áratugurinn

Tilgangur og markmið rótarýs er að auka kynni milli einstaklinga, samfélaga og þjóða, efla vinsemd og friðarhug. Samsetning rótarýklúbba byggist á þessari grundvallarstefnumótum, félagar eru fulltrúar ólíkra starfsgreina í samfélaginu og fundirnir eiga að stuðla að auknum kynnum félaga á störfum, stéttum, fyrirtækjum og stofnunum. Fundarformið er lagað að þessum markmiðum. Félagar draga sér sæti við matborð til að kynnast hver öðrum sem best og fyrirlestur eftir máltíð er af ýmsum toga spunninn, ræðumenn ýmist félagar eða gestir, efni þeirra ýmist dægurmál efst á baugi eða upplýsingar um framkvæmdir, fræðsluefni eða listir. Rótarý er ekkert mannlegt óviðkomandi. Í rótarýklúbbi starfa fjórar höfuðnefndir sem í raun lýsa þessum starfsháttum: klúbbþjónustunefnd, starfsþjónustunefnd, þjóðmálanefnd og alþjóðamálanefnd. Í stærri klúbbum eru fleiri nefndir eftir þörfum.

Af fundargerðum R.H. frá fyrstu áratugum starfsaldursins verður ljóslega séð að félagar hafa fljótlega tileinkað sér grundvallarfélagshætti rótarýs. Sem dæmi má taka að á fjórum fundum í ársbyrjun 1958 voru þessi erindi flutt: Evrópumarkaðurinn (Sveinn Valfells forstjóri), Þorra- og góublót frá fornu fari (Magnús Már Lárusson prófessor), Bókasöfn og bókasafnarar (Þorsteinn M. Jónsson skólastjóri), Skólamál og samfélagið (Jóhann Þorsteinsson kennari).

Algengt er að spurningar og svör komi í kjölfar erindis og er reynt að hafa til þess ráðrúm þótt fundartími sé takmarkaður.

Fyrir kom að umræðuefni á fundum þóttu það markverð að ástæða væri til að flytja þau út fyrir klúbbinn. Á fundi 26. október 1949 vakti Bjarni Snæbjörnsson máls á því að tímabært væri að reisa í bænum myndarlegt samkomuhús sem hýst gæti stærstu samkomur, veislur og fagnaði og væri eins konar samstarfsátak allra gildandi félagasamtaka bæjarins. Þetta hitti í mark. Nefnd var kosin til að hafa samband við önnur félög í bænum, mörg þeirra tilnefndu fulltrúa í nefnd til að koma málinu í kring. Allir viðurkenndu þörf á slíku samkomuhúsi. Því miður reyndist ekki unnt að koma þessu farsællega á laggirnar þótt fagfélög og menningarfélög sýndu áhuga. Reglugerðir opinberra sjóða komu í veg fyrir að fjölmennustu félögin fengju byggingarframlag. Átakið var ofvaxið minni félögunum þótt áhuginn væri fyrir hendi. Þetta hefði samt verið mikið heillaspor. Enn í dag, nær hálfri öld eftir að málið var reifað í rótarýklúbbnum, er þörfin jafnmikil fyrir myndarlegt samkomuhús í bænum.

Það gerðist einnig á þessum árum að umræðuefni á fundi vekti það mikinn áhuga að samþykkt var að halda sérstakan umræðufund um málið og þá gjarnan að kvöldi til svo að tími yrði nægur til ræðuhalda.

Þannig var kvöldfundur haldinn um verslunarmál í bænum 9. mars 1956. Reyndu menn að gera sér grein fyrir hvort hamla mætti gegn því að bæjarbúar flyttu verslun sína í auknum mæli til Reykjavíkur. Þetta var áhyggjuefni hugsandi manna þegar samgöngur tóku að aukast milli bæjanna. Tillögu var hreyft um hvort tímabært væri að stofna Verslunar- og atvinnumálaráð Hafnarfjarðar eða Hagsmunaráð. Ekkert varð úr framkvæmdum í þessum efnum en viðleitnin ber vitni um áhugann og skilninginn á að hlúa að viðskiptum og athöfnum í bænum.

Miklu umfangsmeiri og fjölmennari var kvöldfundur sem haldinn var 25. mars 1960 um hitaveitu fyrir Hafnarfjörð. Var mörgum áhrifamönnum boðið til kvöldverðar og umræðu, ráðherrum, þingmönnum, bæjarstjóra o.fl. nefndarmönnum. Upphaf málsins mun hafa verið að nokkrum vikum áður flutti Sveinn Torfi Sveinsson verkfræðingur erindi á klúbbfundi um hitaveitur. Voru þeir Valgarð Thoroddsen og Sveinn Torfi framsögumenn á kvöldfundinum. Umræður urðu miklar og tóku gestirnir þátt í þeim. Var þar greint frá helstu skoðunum sem uppi voru um hitaveitu fyrir bæinn, virkjun í Krýsuvík, nýtingu jarðhita til rafmagnsframleiðslu, samvinnu um hitaveitu við Reykjavík o.s.frv. Má segja að ljósi hafi verið varpað á málið frá ýmsum hliðum. Umræður voru eins og til var stofnað, upplýsinga- og fróðleiksþættir. Þegar að miðnætti leið var borið fram kaffi og fundarmönnum þökkuð þátttakan.

Fimmtudaginn 7. nóvember 1963 var kvöldfundur haldinn um æskulýðsmál. Sr. Bragi Friðriksson hafði framsögu og ræddi á víð og dreif um vandamál sem æskufólk ætti við að búa og sýndi í háttum sínum, önnum og atferli. Lagði hann til að klúbburinn stofnaði æskulýðsklúbb á sínum vegum en slíkir klúbbar störfuðu víða erlendis. Umræður urðu fjörugar og tóku 13 félagar og einn gestur til máls. Var ýmsu ljósi varpað á umgengni við unglinga og atferli þeirra en ályktanir ekki gerðar og athöfn vísað til stjórnar.

Umræður á klúbbfundum skiluðu einnig merkum athöfnum og framkvæmdum í bænum eins og raunin varð á með Fegrunarfélagið.

Hinn 16. júlí 1964 flutti Bjarni Snæbjörnsson ræðu á klúbbfundi um Hús Bjarna riddara. Lýsti hann gjörla hvað húsið væri illa farið og ekki mætti dragast úr hömlu að taka ákvörðun um hvort endurreisa ætti það eða rífa. Hann rakti fyrri umræður um húsið á öðrum vettvöngum. Kom hann þar máli sínu að hann lagði eindregið til að R.H. beitti sér fyrir varðveislu og endurreisn hússins. Málið var rætt lítillega á næstu fundum og 24. september var boðað til kvöldfundar til umræðu um Hús Bjarna riddara. Þar flutti Bjarni Snæbjörnsson svohljóðandi tillögu:

"Klúbburinn samþykkir að beita sér fyrir því að varðveita og endurbyggja hús Bjarna riddara Sívertsen að fengnu leyfi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar. Til þess að hrinda þessu í framkvæmd skal kosin nefnd 5 manna sem í samráði við stjórn klúbbsins kveði á um hvar húsið verði endurreist, hve mikið fjármagn þurfi til verksins og hvernig heppilegast væri að afla fjárins og standa fyrir framkvæmd verksins.”

Tillagan var samþykkt og nefndin kosin. Í henni voru:

Bjarni Snæbjörnsson, Stefán Jónsson, Jón Bergsson, Sigurður Kristinsson og Stefán G. Sigurðsson. Nefndin skrifaði öðrum félögum í bænum um málið og varð niðurstaðan sú að stofnað var félagið „Hús Bjarna riddara”. Svo segir í Sögu Hafnarfjarðar 1908-1983, þriðja bindi bls. 230: „Í febrúarmánuði sama ár (1965) heimilaði bæjarstjórn Rótarýklúbbi Hafnarfjarðar að endurbyggja húsið og ákvað að greiða allt að 1/4 af kostnaði við endurbygginguna, enda yrðu allar framkvæmdir við húsið og verndum þess gerðar í samráði við þjóðminjavörð og bæjarverkfræðing.”

Á þennan hátt komst málið í ákveðinn farveg og þótt áratugur liði þar til húsið var tilbúið til vígslu sem minjasafn voru framkvæmdir í réttu horfi. Eins og vænta mátti var þetta harla dýrt fyrirtæki og fengust fjárframlög úr ríkissjóði, bæjarsjóði og víðar að. Rótarýfélaginn Gunnar H. Ágústsson hafnarstjóri sá að mestu um framkvæmdir af bæjarins hálfu en til ráðgjafar var þjóðminjavörður, í fyrstu dr. Kristján Eldjárn og síðar Þór Magnússon. Í ársbyrjun 1966 var fenginn til landsins danskur sérfræðingur í gerð slíkra húsa. Karsten Rönner. Hann kom á fund í R.H. 27. janúar 1966 og lýsti upprunalegri gerð hússins.

Bæjarstjórn tók Hús Bjarna riddara algerlega upp á sína arma árið 1973 og á þjóðhátíð til minningar um ellefu hundruð ára byggð í landinu árið eftir var það vígt sem byggðasafn. Þó að hér hafi að undanförnu verið mest greint frá málefnum sem tengdust framkvæmdum og samfélagsbótum væri fjarri lagi að láta hjá líða að minnast á dagamun og samkomur til skemmtunar og hátíðarbrigða. Þegar félögum fjölgaði og starfsemin varð mótaðri urðu afmæli og árshátíðir klúbbsins fjölsóttari og fjörugri.

Hátíðarsamkomur voru yfirleitt haldnar að haustinu, kringum afmæli klúbbsins eða á útmánuðum nema hvort tveggja væri.

Haustið 1960 var í fyrsta sinn haldin árshátíð á Garðaholti en hún var jafnframt 700. klúbbfundur. Formaður skemmtinefndar var þá Hans Christiansen en hann bjó í Garðahreppi og hafði verið kvenfélaginu í hreppnum innan handar við lagfæringu og endurgerð samkomuhússins á Garðaholti. Var þessi árshátíð R.H. ein fyrsta gleðin sem haldin var í húsinu eftir endurgerð þess og stækkun. Næstu árin voru árshátíðir klúbbsins haldnar á Garðaholti og þóttu takast vel. Stemmning var alltaf með hressasta móti í þeim húsakynnum.

Skemmtiatriði á þessum hátíðum voru yfirleitt heimafengin og innan klúbbs og fór um fjölbreytni þeirra eftir hugkvæmni skemmtinefndarmanna. Var þar oft um furðu auðugan garð að gresja. Menn voru látnir yrkja hver um annan, lýsa tilteknum félaga svo fólkið mætti þekkja, teikna og segja sögu, halda óundirbúið tveggja mínútna ræðu um efni tilnefnt á stundinni, mæla fyrir minni í tilteknum orðafjölda, o.s.frv. Tilbrigði voru fjölmörg.

Sú var venja á þessum árum að alltaf skyldi mælt fyrir minnum og þá ekki síst fyrir minni kvenna. Fyrsta atriði á öllum hátíðum var jafnan að kynna gesti sem að sjálfsögðu voru að mestu leyti konur félaga. Nú gerist það eitt sinn þegar forseti er að ljúka við þessa kynningu að Beinteinn Bjarnason rís snöggt úr sæti, prúðbúinn að vanda, hár og teinréttur, svipast um sali og segir með vanþóknun í rómnum: „Við syngjum Fósturlandsins Freyja!” Settist svo niður án þess að fást meira um. Forseti segir þá prúðmannlega að seinna komi að heiðurssöng fyrir konurnar. Þá rís upp Loftur Bjarnason, óvænt og óforvarandis eins og hans var háttur, skimar um salarkynni og segir: „Það má ekki minna vera en við heiðrum þessar fögru konur okkar sem valið hafa okkur þessa ljótu karlskrögga að lífsförunautum. Við syngjum Fósturlandsins Freyja. Hvar er Stefán Jónsson?” Enn segir forseti ljúfmannlega: „Nei, það er ekki enn komið að Fósturlandsins Freyju. Einar Halldórsson mælir nú fyrir minni kvenna!”

Síðan heldur Einar Halldórsson langt og snjallt erindi fyrir minni kvenna. Að því loknu sprettur Loftur upp og segir: „Svona, ekkert orð framar. Forseti, láttu Stefán byrja á Fósturlandssins Freyju!”

Margir klúbbfélagar voru vel máli farnir og áttu létt með að halda fjörmiklar tækifærisræður. Skal þar fyrstan telja Loft Bjarnason sem hafði allra manna best lag á að koma samkvæmisgestum í gott skap. Var það segin saga að þegar Loftur hafði tekið til máls, og stundum þá oftar en einu sinni, færðist líf og fjör í salinn, og aðrir komu á eftir og létu ljós sitt skína. Lögðu menn sig fram um að vera fyndnir og skemmtilegir. Dauft borðhald þekktist ekki á þessum árum.

Þótt Loftur sé hér sérstaklega nefndur voru fleiri sem flutt gátu snjallar tækifærisræður. Stefán Jónsson fór oft á kostum, Beinteinn skaut beint, Oliver Steinn var hress og reifur. Eftir að klúbbsvæðið var stækkað og félagar úr Garða- og Bessastaðahreppi komu í klúbbinn bættust málsnjallir menn í hópinn: Jóhann Jónasson, Ólafur G. Einarsson, Sveinn Torfi Sveinsson og Einar Halldórsson á Setbergi.

Einar á Setbergi gat sagt kostulega frá. Eitt sinn lýsti hann för sinni á hænsnaræktarþing á Azoreyjum. Hann sagði í sömu andrá frá prýðishænum í húsagörðum og fáklæddum yngismeyjum á baðströnd svo að ekki mátti á milli sjá hvenær hann var að greina frá leikjum pútna eða pía. Þannig tvinnaði hann þetta saman svo að gestaþraut varð úr!

Árleg forsetaskipti í rótarý gera það að verkum að misjafnar áherslur verða í stjórn forseta frá ári til árs. Slík tilbreytni er oft til bóta og ánægju.

Á þeim áratugi í sögu klúbbsins sem frá segir í þessum kafla, 1956-66, tóku forsetar upp ýmsa nýja þætti á stjórnarstóli. Einn tók upp þann sið að láta lesa ljóð dagsins i upphafi fundar og tilnefndi mann til þess í fundarlok að lesa ljóðið á næsta fundi.

Annar hélt sig við þá venju á sínum stjórnarferli að hafa yfir heilræðasetningu eða vísdómsorð um leið og hann sleit fundi. Þessi tilbrigði entust aðeins stjórnarár þessara forseta en öðru máli gegnir um þriðja tilbrigðið sem tekið var upp, söng í lok fundar. Sá forseti skipaði Stefán Jónsson söngstjóra og var það að vonum því að Stefán haði jafnan stýrt söng á hátíðarfundum og um jól og nýár. Nú skyldi sungið í lok hvers fundar. Seinna breyttist þessi regla og farið var að syngja í fundarbyrjun. Á þessa reglu verður síðar minnst.

Á árinu 1958 var stofnað til nýjungar í klúbbnum sem teljast verður sérstök og merkileg. Þá lét klúbburinn prenta jólamerki og einnig minningarmerki um 50 ára kaupstaðarafmæli bæjarins. Jólamerkjaútgáfan hefur verið árlegur viðburður æ síðan.

Það var Magnús Guðlaugsson sem flutti þá tillögu á fundi 7. nóvember að klúbburinn gæfi út jólamerki til fjáröflunar.

Málinu var þegar hrint í framkvæmd. Tildrög þessa máls voru þau að á árinu var mikið rætt um sérstakan sjóð innan klúbbsins sem veita mætti úr til ýmissa nauðsynja utan venjulegra klúbbstarfa. Þar kom, að á fundi 11. júlí þetta ár ræddi Júlíus Nýborg um stofnun framkvæmdasjóðs og var stofnun hans samþykkt að tillögu forseta. Júlíus afhenti sjóðnum kr. 5.691.88 sem stofnfé en þetta var afgangur af söfnunarfé sem hann hafði aflað til trjáplöntunar við Hamarinn á sínum tíma. Júlíus gat þess að framkvæmdasjóður ætti að vera til fyrir fleiri verkefni en tjáplöntun. Skipulagsskrá fyrir sjóðinn var samþykkt eftir tvær umræður á klúbbfundi 10. apríl 1959. Samkvæmt henni var kosin stjórn sjóðsins: Júlíus Nýborg formaður, Valgarð Thoroddsen ritari og Beinteinn Bjarnason gjaldkeri.

Það var mikið heillaspor að Beinteinn var kjörinn gjaldkeri. Segja má að hann hafi upp frá því og allt til dauðadags, 4.2.1984 stjórnað útgáfunni. Hann fékk Ásgeir Júlíuson til að teikna fyrstu merkin, sá um myndaval, prentun, dreifingu og sölu innan klúbbs og utan og innan lands og utan. Bjarni Jónsson listmálari gekk í klúbbinn um mitt ár 1962. Beinteinn var ekki seinn á sér að fá hann til að mála mynd á jólamerkið það ár og það átti eftir að endurtaka sig. Seinna gengu þrír aðrir myndlistarmenn í klúbbinn og hafa þeir allir lagt jólamerkinu til mynd. Að ráði Beinteins komst sú skipan á að klúbbfélagar voru skikkaðir til að kaupa ákveðinn fjölda merkja fyrir jólin og hefur sá vani haldist síðan. Síðar verður gerð grein fyrir fjárveitingum úr sjóðnum.

Í lok annars áratugar á ferli klúbbsins, árið 1966, höfðu alls 68 manns gerst félagar, en félagar voru þó ekki nema 48; 20 höfðu ýmist látist eða gengið úr klúbbnum. Þótt klúbburinn væri ekki ýkja fjölmennur var hann talinn traustur og lifandi í starfi á þessum árum og naut álits umdæmisstjóra og annarra klúbba.

Atvikin höguðu því svo að á tuttugasta aldursári klúbbsins, 1965-66, kom í hans hlut að leggja til umdæmisstjóra öðru sinni, hinn átjánda í röðinni. Fyrir valinu varð dr. Sverrir Magnússon lyfsali og reyndist hann ötull og traustur í starfi eins og vænta mátti. Á starfsári hans voru stofnaðir þrír rótarýklúbbar, á Héraði, í Garðahreppi og í Rangárþingi. Áhrifaríkust fyrir R.H. var stofnun klúbbsins í Garðahreppi. Þá sá R.H. af fimm félögum sínum til hins nýja klúbbs. Allt voru þetta áhugasamir og dugandi félagar enda mynduðu þeir fyrstu stjórn nýja klúbbsins, Jóhann Jónsson, sr. Bragi Friðriksson, Ólafur G. Einarsson, Einar Halldórsson og Sveinn Torfi Sveinsson. Klúbburinn nefndist Rótarýklúbburinn Görðum og náði yfir Garða- og Bessastaðahrepp. R.H. var að sjálfsögðu móðurklúbburinn.

Allan annan áratuginn á ferli sínum hélt klúbburinn fundi á sama stað nema hvað seinni hluta árs 1964 voru fundir í Góðtemplarahúsinu vegna viðgerða og endurbóta á Sjálfstæðishúsinu. Um mánaðamótin júní júlí 1962 var breytt um fundardag. Félagar töldu margir helst til annasamt á föstudögum svo að samþykkt var að hafa fundi á fimmtudögum og hefur það haldist síðan.

Eins og vera bar kom það í hlut R.H. að halda umdæmisþing í júnímánuði1966. Umdæmisstjóri og undirbúningsnefnd kusu að halda þingið á Laugarvatni. Reyndist það vera hin besta ráðstöfun enda veður himneskt um Jónsmessuleytið og umhverfið hið fegursta. Þingið var afar vel sótt, hálft þriðja hundrað manns í lokahófinu, margar ræður fluttar og skemmtiatriði góð. Eins og áður hefur verið á minnst var siður á þeirri tíð að mælt skyldi fyrir minni kvenna, félagsskapar og fósturjarðar á svona samkundum. Það þótti einnig hæfa í þessu hófi.

En meðan á undirbúningi stóð kom formaður undirbúningsnefndar Oliver Steinn,að máli við Stefán Júlíusson og mælti svo fyrir að hann flytti þessi þrjú minni í einu máli á fimm mínútum! Mótmæli voru ekki tekin til greina á þeim bæ og kaus Stefán að flytja minnið í bundnu máli. Voru þetta tíu erindi og er fyrsta erindið svona:

Ég var beðinn að blanda hér kokkteil
og byrla ykkur þríeina skál
til lofgerðar landi og konum
og lifandi rótarýsál.
Því félagið, moldin og mærin
eru maklegust efni í full,
við vitum að þrenningin þessi
ljær þroska og manndóms gull.

Og síðasta erindið var á þessa lund:

Ég var beðinn að blanda hér kokkteil
og byrla ykkur hátíðarfull
til að minna á Fjallkonufegurð
og félagsskaparins gull.
Hér er þá mitt hátíðarminni
og hér er mitt sjafnarmál
Þetta er minn Íslandsóður
sem yljast við rótarýskál.

 

Maður lét hafa sig í ýmislegt í þann tíð!

En þótt klúbburinn stæði fyrir þessari miklu hátíð á Jónsmessu þótti hlýða að minnast 20 ára afmælisins og jafnframt 1000 fundarins á veglegan hátt um haustið. Haldið var hóf í Tjarnarbúð í Reykjavík 15. október 1966 og var mikið til þess vandað. Þrír félagar fluttu ágrið af sögu klúbbsins og skiptu árunum milli sín. Það voru þeir Bjarni Snæbjörnsson, Eiríkur Pálsson og Jóhann Þorsteinsson. Margir fleiri tóku til máls og fluttu kveðjur og heillaminni. Einnig voru skemmtiatriði, söngur og dans fram á nótt. Var þetta mikil veisla og veglegur dagamunur á merkum tímamótum í sögu klúbbsins.

 

III - Þriðji áratugurinn

Rótarýhreyfingin er alþjóðafélagsskapur, orðinn meira en níutíu ára gamall. Fyrsti rótarýklúbburinn var stofnaður í Chicagóborg árið1905. Stofnandi samtakanna var lögfræðingurinn Paul Harris og lagði hann fljótt þann grundvöll að starfsemi klúbbanna að þeir ynnu skilvirknislega í þágu þjónustuhugsunar; félagarnir hefðu jafnan í huga þjónustu við náungann, við samfélagið, þjóðfélagið og mannkynið allt.

Þegar sérstakur sjóður alheimssamtakanna, Rótarýsjóðurinn, efldist og styrktist, var ríflegum fjármunum varið til hvers konar menningarlegra viðfangsefna. Rótarýsjóðurinn veitir árlega hundruð milljónir dollara til menntunar, menningar og mannbóta. Hver einstakur rótarýfélagi leggur sitt af mörkum í þennan heildarsjóð og því er hann aðili að styrkveitingum til námsfólks, sjúkrahjálpar, nemendaskipta og starfshópakynna um víða veröld.

Svonefnd starfshópaskipti voru tekin upp á vegum samtakanna árið 1965. Þau eru í því fólgin að fjórum til sex starfandi mönnum er boðið að ferðast til ákveðins lands til að kynnast menningu, atvinnuvegum og þjóðlífi. Jafnstór hópur frá gistilandi fer til hins landsins. Þessi starfsmannaskipti eru í raun á vegum rótarýumdæma; þau annast og kosta 4-6 vikna dvöl þátttakenda en Rótarýsjóðurinn greiðir ferðirnar milli landanna.

Sumarið 1969 kom í hlut R.H. að taka á móti starfshópi frá Ohio í Bandaríkjunum. Þetta var sex manna hópur, starfandi kennarar, lögfræðingar og verkfræðingur, ásamt fararstjóra sem var roskinn og reyndur rótarýfélagi. Þátttakendur í starfshópnum mega hins vegar ekki vera rótarýfélagar; þetta er alþjóðaþjónusta út fyrir hreyfinguna. Þátttakendur eiga að vera á virkum starfsaldri. Þetta voru fyrstu starfshópaskipti við íslenska umdæmið svo að mikið lá við að vel tækist.

R.H. átti að vera gestgjafi þátttakendanna í fjóra sólarhringa og var kosin nefnd til að sjá um framkvæmd heimsóknarinnar og vann hún með stjórninni. Formaður hennar var Stefán Júlíusson. Dagsskráin var mikil þessa fjóra daga, 18.-21. júní, skoðun á fyrirtækjum, stofnunum og umhverfi bæjarins, matarveislur og ferðalög. Farið var til Krýsuvíkur og þar var gestum boðið að fara á hestbak! Allir þátttakendur gistu á heimilum rótarýfélaga í fjórar nætur og tókst það ánægjulega. Eftir dvöl í Hafnarfirði var gestunum skilað til Keflavíkur. Alls dvöldust þeir sex vikur hér á landi.

Það bar til skemmtilegra tíðinda í lok dvalar þessara ungu embættismanna hér á landi að einn þeirra, lögfræðingurinn Rodney M. Arthur, brá á það ráð að heimta unnustu sína á sinn fund vestan frá Ohio og voru þau gefin saman í hjónaband með pomp og prakt í gömlu kirkjunni í Árbæ. Hér á þá við að nefna eftirleikinn: Tuttugu árum síðar komu þau hjón við hér á landi með börn og buru og héldu upp á tuttugu ára brúðkaupsefmæli sitt með boði á Hótel Sögu. Þar voru fjölmargir rótarýkunningjar frá því fyrir tveimur áratugum og allstór hópur rótarýfélaga úr Hafnarfirði með frúm sínum!

Það mun hafa verið Kristinn J. Magnússon sem fyrstur impraði á því á rótarýfundi að vel væri við hæfi að klúbbfélagar færu í heimsókn á elli- og hjúkrunarheimilið Sólvang og styttu gamla fólkinu þar stundir eina kvöldvökustund með sögum og frásögnum. Af þessu varð þó ekki fyrr en 13. júní 1968. Þá fóru 13 rótarýfélagar í heimsókn á Sólvang og fluttu fjórir þeirra vistfólkinu ýmis konar efni. Voru þeir með Ómar Ragnarsson í fylgd með sér og ekki dró það úr ánægjunni. Að lokum létu þeir mannskapinn syngja með sér.

Forstjóri á Sólvangi var þá rótarýfélaginn Eiríkur Pálsson. Hann þakkaði heimsóknina í löngu ljóði eins og vænta mátti. Þetta eru lokaerindin:

 

Lauk svo
ljúfri stundu.
Gamlir menn
og gráhærðar konur
þakkir færðu
þessum drengjum
er glöddu þau
af góðum huga.

 

Líður tími.
Ljós slokkna.
Æska hverfur
og aldnir deyja.
En góðverk
göfugra sálna
í letur færir
Lykla-Pétur.

 

Árið eftir var á sama hátt efnt til kvöldvöku á Sólvandi og þótti hún verða öllum til ánægju. Eiríkur þakkaði enn með ljóði:

 

Að Sólvangi seggir komu sviphreinir og íturvaxnir.
Fluttu og færðu okkur fegurð með ýmsum hætti.
Athygli allt fas vakti. Aldna og sjúka glöddu.
Þeir urðu menn að meiri og mjög rótarý til sóma.

 

Af þessum kvöldvökum klúbbfélaga á Sólvangi spratt sú tillaga að æskilegt væri að kjósa árlega sérstaka Sólvangsnefnd. Þetta var samþykkt og síðan hefur verið föst nefnd í klúbbnum sem kallast Sólvangsnefnd þótt hlutverk hennar breyttist nokkuð þegar fram liðu stundir.

Árið 1968 var stofnað hér í bænum Styrktarfélag aldraðra. Stofnandi þess var rótarýfélaginn Jóhann Þorsteinsson sem þá var nýlega hættur í forstjórastöðu á Sólvangi. Félagar í R.H. voru frá upphafi traustir stuðningsmenn þessa félags eins og best sést á því að í fyrstu stjórn þess voru fjórir rótarýfélagar. Strax á öðru ári félagsins, haustið 1969, gekkst það fyrir þeirri nýbreytni að bjóða öldruðu fólki til kaffidrykkju og skemmtidagskrár annað hvort laugardagssíðdegi að vetrinum og nefndi samkomuna „opið hús”. Fljótlega varð það að ráði að fá ýmis félög og klúbba í bænum til að sjá um dagskrár í „opnu húsi”. R.H. var þar í flokki á hverju ári og vandaði til dagskrár fyrir jólin. Sólvangsnefnd var falið að annast þetta af klúbbsins hálfu og svo hefur verið um aldarfjórðung. Fyrstu árin var rólfært fólk flutt frá Sólvanri í „opið hús” og því þótti engin þörf á að breyta nafni nefndarinnar. Og engin breyting hefur orðið á framlagi klúbbsins til þessa dagamunar eftir að félagsmálastofnun tók við „opnu húsi”. Nafn nefndarinnar er hins vegar til minnis um upphaf þessarar starfsemi, kvöldvökurnar á Sólvangi sem voru allmörg ár í maímánuði. Eitt árið fóru rótarýfélagar með fólk af Sólvangi í ferðalag til Hveragerðis.

Starfsárið 1970-1971 var Gunnar H. Ágústsson forseti. Hann bryddaði upp á þeirri nýbreytni að fá félaga og aðra til að segja frá uppvaxtarárum sínum í Hafnarfirði. Fyrstur reið á vaðið Emil Jónsson, sem að vísu var ekki rótarýfélagi, og sagði skemmtilega frá lífinu í bænum á tveimur fyrstu áratugum aldarinnar. Í nóvember flutti Stefán Júlíusson minningaþátt sem hann hafði tekið saman um bernskuár sín í hrauninu vestan bæjarins. Frásögnin féll í góðan jarðveg og hélt höfundur áfram sögu sinni og samdi alls tíu þætti um efnið. Suma flutti hann í klúbbnum en alla í Ríkisútvarpinu. Og árið 1972 komu þeir út í bók sem hann nefndi Byggðin í hrauninu. Var henni mjög vel tekið af bæjarbúum. En þetta mun vera eina bókin sem til hefur orðið vegna hvatningar og frumkvæðis forseta í R.H. og því er á hana minnst hér.

Á þessum misserum efldist Framkvæmdasjóður klúbbsins að miklum mun. Beinteinn Bjarnason kallaði sjóðinn Jólamerkjasjóð því að tekjur hans voru að langmestu leyti af útgáfu jólamerkjanna sem hann annaðist af mikilli kostgæfni eins og áður er getið. Aðrar tekjur voru einstakar gjafir félaga af sérstöku tilefni og afgangur af hátíðum og tyllidögum ef einhver varð.

Haustið 1969 beittu kvenfélagasamtök sér fyrir almennri fjársöfnun til styrktar byggingu og útbúnaði kvenlækningadeildar Landspítalans sem þá var í smíðum. Konur í Hafnarfirði létu ekki sitt eftir liggja í þessu framtaki. Beinteinn Bjarnason lagði þá til á fundi að klúbburinn veitti 130.000 krónur úr Framkvæmdasjóði til þessa verkefnis. Var það samþykkt. Þótti þarna myndarlega að verki staðið og varð blaðafrétt með myndum.

Nokkru síðar kom fram tillaga um að gefa sérstakt augnskoðunartæki á Sólvang og var hún samþykkt. Framkvæmdasjóður lagði til fé til kaupanna sem var hið mesta nauðsynjaverk og gat komið bæjarbúum í heild að gagni.

Haustið 1969 urðu þau þáttaskil á ferli klúbbsins að skipt var um fundarstað. Svo að segja frá stofnun hafði hann haldið fundi sína í Sjálfstæðishúsinu og sérstök matselja, Sólveig Eyjólfsdóttir, lengi séð um hádegisverðinn. En nýlega hafði risið mikið hús á mótum Strandgötu og Reykjavíkurvegar og í því tekið til starfa veitingahúsið Skiphóll. Þótti þá að ýmsu leyti eðlilegra að halda fundina þar og því var skipt um stað. Sólveig og aðstoðarstúlkur hennar voru kvaddar með virktum og gjöfum eftir 16 ára samstarf. Þakkaði Sólveig fyrir góð kynni og kvaddi með mikilli vinsemd eftir að hafa tekið til í rótarýpottinn 825-830 sinnum!

Fáeinum dögum áður en fyrsti fundurinn var haldinn í Skiphól var árshátíðin haldin þar og tóku þátt í henni á annað hundrað manns.

Félagar R.H. brugðu gjarnan undir sig betri fætinum á þessum misserum og heimsóttu aðra rótarýklúbba og tóku á móti félögum úr öðrum byggðarlögum. Sameiginlegir fundir og samkvæmi voru haldin með nágrannaklúbbum og klúbbunum fyrir austan fjall og handan flóanns. Þannig var rækt það rótarýákvæði að efla vináttu og treysta bönd samhjálpar og friðar. Mergurinn málsins er sá að með auknum kynnum og vinsamlegum mótum verði mannleg samskipti betri og skilningur og vinskapur meiri.

Framtakssamasta ferðalag klúbbfélaga var þó för til Færeyja og Skotlands í júlímánuði 1971. Að vísu var tæplega þriðjungur félaganna í ferðinni en hópurinn var þó allstór því að margar konur voru með í för og fleiri af skylduliði. Gestrisni Færeyinganna var frábær og fyrirgreiðsla öll hin besta af heimamönnum. Samfundur með Rótarýklúbbi Þórshafnar var strax fyrsta kvöldið, fimmtudaginn 8. júlí, og næstu daga voru skoðunarferðir á sjó og landi, dansleikur og heimboð. Sunnudaginn 11. júlí var síðan flogið til Glasgow og þar var haldinn sameiginlegur fundur með rótarýfélögum á staðnum. Síðan var flogið heim þaðan en nokkrir þátttakendur lengdu dvöl sína í Skotlandi.

Þessa er sérstaklega getið hér vegna þess að Færeyjaför klúbbfélaganna hafnfirsku varð til þess að rótarýfélagarnir í Þórshöfn komu til Íslands tæpum fjórum árum síðar eða í maí árið 1975. Þeir voru tuttugu og fimm talsins, félagar og konur. Forseti R.H. var þá Niels Árnason og tók hann myndarlega á móti gestunum eins og raunar allur klúbburinn, ekki síst þeir sem notið höfðu gestrisninnar í Færeyjum. Færeyingarnir dvöldust hér í fimm daga og var heimsóknin vel skipulögð og öllum til ánægju.

Það er ekki þáttur í starfsháttum rótarýs að safna fé til einstakra atvika eða einstaklinga í nauð. Rótarýklúbbur gengst alla jafna ekki fyrir einstökum fjársöfnunum. Framkvæmdir og athafnir rótarýs eru yfirleitt á alþjóðavísu og hver félagi þá þátttakandi eins og áður hefur verið rakið. Hins vegar hafa alltaf komið fyrir tilfelli sem kallað hafa á stuðning R.H., annað tveggja með frjálsum samskotum félaganna eða framlagi úr sjóðum klúbbsins. Þetta verður ekki tíundað hér nema sérstakar undantekningar. En sem dæmi um svona viðbragð má nefna að Jón Bergsson forseti klúbbsins lagði það til í byrjun júní 1972 að vert væri að félagar söfnuðu bókum til að gefa í bókasafnið á Litla-Hrauni. Í aprílmánuði árið eftir tilkynnti Albert Kristinsson þáverandi forseti að fjórir félagar hefðu farið austur á Litla-Hraun og afhent nokkra tugi bóka í safnið þar og hefði það verið vel þegið. - Þessa er getið hér vegna þess að tilfellið er sérstakt en svona atvik er víða að finna í sögu klúbbsins.

Gosið í Vestmannaeyjum 23. janúar 1973 sagði til sín í starfi og ferli R.H. ekki síður en í öðrum félögum og samfélögum í landinu. Rótarýfélagar í öðrum löndum, sérstaklega á Norðurlöndum, réttu hjálparhönd yfir hafið, söfnuðu fé og fengu klúbba hér á landi til að hafa milligöngu í þessum efnum, m.a. R.H. Rótarýfélagar úr Eyjum voru tíðir gestir á fundum klúbbsins eftir gosið og var þeim veitt öll sú fyrirgreiðsla sem á valdi félaganna var.

Þessi vinátta og greiðasemi tók á sig áþreifanlegasta mynd í gerðum Sverris Magnússonar fyrrverandi umdæmisstjóra. Umdæmisstjóri á undan honum var félagi í Vestmannaeyjum, Haraldur Guðnason bókavörður. Þeir voru umdæmisstjórar 1964-65 og 1965-66. Eins og von er til eru samskipti starfandi og verðandi umdæmisstjóra mikil og verður þeim oftast vel til vina. Svo var um þá Harald og Sverri. Þegar þau hjónin Haraldur og kona hans voru orðin vegalaus á fastalandinu eftir gosið kom Sverrir að máli við þau og bauð þeim að búa í húsi sinu í Hafnarfirði. Sverrir vildi ekkert um þetta tala, sagði aðeins að svo vel hefði viljað til að hann hefði haft lausa íbúð í húsi sínu á Strandgötunni. Þau hjón bjuggu um misseri hjá Sverri eða þar til þau gátu snúið aftur til Eyja. Var Haraldur tíður gestur á fundum klúbbsins þennan tíma og flutti þar erindi.

Undir lok þriðja áratugar á ferli klúbbsins kom það í hans hlut að tilnefna umdæmisstjóra í þriðja sinn. Var það einn af stofnendum klúbbsins, Valgarð Thoroddsen, og var hann umdæmisstjóri starfsárið 1974-75. Að vonum rækti hann þetta verkefni hið besta af hendi. Hann andaðist árið 1978.

Að sjálfsögðu kom það í hlut R.H. að skipuleggja og sjá um formót og umdæmisþing árið 1975. Var það haldið á Laugarvatni 28. og 29. júní og var hið veglegasta. Eins og tíðkast hefur var sérstök undirbúningsnefnd tilnefnd til að vinna með umdæmisstjóra og klúbbstjórninni og var formaður hennar Albert Kristinsson. Skilaði hún góðum hagnaði af þinghaldinu auk góðra verka.

Félagatalan í klúbbnum var allbreytileg á þessu tímabili.

Margir gerðust félagar en aðrir hurfu frá, dauðsföll voru nokkur. Lætur nærri að fjölgað hafi í klúbbnum um einn á ári á þriðja áratugnum á ferli hans. Við lok hans voru félagar 56.

Það er annálsvert að á fyrsta fundi starfsársins 1975-76 mælti forsetinn, Gísli Jónsson, svo fyrir að Stefán Jónsson skyldi hefja söng í upphafi hvers fundar. Stefán hafði áður verið sjálfkjörinn söngstjóri á öllum hátíðum og tyllidögum en nú skyldi hann kallast söngstjóri klúbbsins og hver fundur hefjast með söng. Stefán tók við starfinu og rækti það af kostgæfni. Þessa ber að geta hér því að í mjög fáum klúbbum hér á landi viðgengst sú venja að hefja fund með söng.

Reynt var að skipta um söngstjóra þegar frá leið en það reyndist ekki of vel og ræktu þeir nafnarnir Stefán Jónsson og Stefán Júlíusson starfið saman um árabil. Seinustu árin hefur Stefán Júlíusson verið söngstjóri með góðri aðstoð og samstarfi þeirra Böðvars B. Sigurðssonar og Helga S. Þórðarsonar.

Inner Wheel nefnist félagsskapur eiginkvenna rótarýfélaga; nafnið dregið af rótarýmerkinu og hefur ekki verið þýtt. Inner Wheel átti upptök sín í Englandi en fluttist hingað til lands árið 1973.

Hinn 4. nóvember 1976 stofnuðu konur hafnfirskra rótarý-félaga Inner Wheel klúbb og var fyrsti forseti hans Lára Jónsdóttir. Þessi klúbbur kvennanna hefur verið R.H. til styrktar og ánægjulegra samskipta frá upphafi. Reynslan hefur verið sú að Inner Wheel er rótarýklúbbnum til uppörvunar og nytsemdar í störfum. Síst má gleyma að þær Inner Wheel konur hafa árlega efnt til ferðalaga með körlum sínum. Þessi ferðalög hafa jafnan verið þátttakendum til mikillar ánægju enda vel undirbúin og skipulögð.

 

IV - Fjórði áratugurinn

Þegar litið er yfir fjórða áratuginn á starfsferli R.H. og hann skoðaður í heild má vel segja að tvenns konar starfsemi setji svip á umræður og athafnir, skiptinemaumsvif og starfshópaskipti. Fyrirkomulag og framkvæmd starfshópaskipta er rakið all nákvæmlega í síðasta kafla og verður það ekki endurtekið hér. En vert er að geta þess að á fjórða áratugnum á ferli R.H. hafði íslenska rótarýumdæmið þrisvar sinnum starfshópaskipti við umdæmi í öðrum löndum, árið 1978 við umdæmi í Nýja Suður-Wales í Ástralíu, árið 1980 við umdæmi í Texas í Bandaríkjunum og árið 1986 við umdæmi í Oregon í Bandaríkjunum.

Sérstakar nefndir fengu það hlutverk að annast móttöku gestanna, sjá þeim fyrir gistingu, fræðslu og afþreyingu þá þrjá til fjóra daga sem klúbbnum var ætlað að hafa þá í sinni umsjá. Það er allmikil fyrirhöfn að hafa á reiðum höndum dagskrá fyrir 67 manns sem ókunnugir eru landi og þjóð en eru beinlínis komnir til að fræðast um sem mest á 5-6 vikum.

R.H. var svo heppinn að til formennsku í móttökunefnd starfshópa valdist Gísli Jónsson prófessor og fékk hann mikinn áhuga á verkefninu og hefur sinnt því af einstakri kostgæfni og ötulleik. Hann var fararstjóri hópsins sem fór til Oregon 1986 og öðlaðist þá dýrmæta reynslu í starfi.

Þessi dugnaður og reynsla Gísla í þessum efnum hefur orðið til þess að umdæmisráð og umdæmisþing hafa tilnefnt hann formann starfshópanefndar umdæmisins og er starfssvið hans því landið allt. Á þann hátt vinnur hann klúbbi sínum álits og virðingu.

Annan klúbbfélaga má nefna í sömu andrá, Jón Ásgeir Jónsson, sem er formaður skiptinemanefndar umdæmisins eða Æskulýðsnefndar eins og hún heitir. Áhugi hans á verkefninu og dugnaður í starfi hefur skilað honum í þá stöðu. Að sjálfsögðu hefur það verið og er klúbbnum til sóma. Það styrkir hann og eflir í starfi þegar félögum hans eru falin störf fyrir heildarsamtökin. Jón Ásgeir er af störfum sínum orðinn nákunnugur þessu umfangsmikla rótarýverkefni.

Haustið 1979 fór fyrsti hafnfirski skiptineminn til Texas í Bandaríkjunum fyrir tilstilli og á vegum R.H. Þetta var Hafsteinn Eiríksson, Birkihvammi 4, ? ára gamall, og dvaldist hann í ? í Texas við nám um veturinn. Árið eftir, 25. september 1980, kom hann á fund í klúbbnum og sagði frá veru sinni vestra og sýndi skyggnur. Lét hann hið besta af þessari reynslu.

Næsti skiptineminn sem klúbburinn hafði veg og vanda af var Guðmundur, sonur Jóns Ásgeirs, og má segja að með dvöl hans og kynnum af skiptinemastarfseminni hafi áhugi Jóns vaknað á verkefninu. Guðmundur dvaldist á Long Island veturinn 1982-83. Hann lét mjög vel af dvöl sinni og flutti um hana erindi á klúbbfundi 18. ágúst 1983.

Fyrsti erlendi skiptineminn sem dvaldi í bænum á vegum R.H. var stúlka frá New York fylki í Bandaríkjunum, Lucy Bean að nafni, og dvaldist hún hér frá sumri 1983 í eitt ár. Hún stundaði nám í Flensborg eins og allir erlendir skiptinemar R.H. hafa gert. Lucy Bean var prýðilegur fulltrúi og ávann sér vináttu og velvild fósturforeldra sinna og félaga. Hún lærði íslensku svo að af bar og skrifaði vinum sínum og klúbbnum ágæt bréf á íslensku lengi eftir að hún dvaldist hér. Kveðjuerindi sitt 2. ágúst 1984 flutti hún á ágætri íslensku.

Erlendu skiptinemunum hefur gengið misjafnlega að læra málið og enginn þeirra hefur komist til jafns við Lucy Bean í þeim efnum nema ef vera skyldi Nick Busch sem dvaldist hér 1990-91. Hann náði frábærlega góðum tökum á málinu og lagði sig mjög fram um að tala það og skrifa sem best.

Alls fóru 6 unglingar á vegum klúbbsins sem skiptinemar til annarra landa, á þessu tímabili, 1 stúlka og 5 piltar. Þeir dvöldust allir við nám í Bandaríkjunum.

Það gefur augaleið að því fylgja allmiklir erfiðleikar að taka á móti skiptinemum og annast þá og fóstra árlangt. Til þess er ætlast að þeir dveljist á tveimur til þremur heimilum meðan á dvölinni stendur og eins og að líkum lætur getur reynst erfitt að finna heimili sem vegna lífshátta og kringumstæðna treystir sér til að taka ókunnan táning í fóstur svo mánuðum skiptir.

Á vegum R.H. voru 5 erlendir skiptinemar hér á árunum 1983-86 og má af því sjá að ýmsir félagar hafa lagt drjúgt af mörkum í þágu þessarar starfsemi. En allt miðar þetta að heildarátaki rótarýhreyfingarinnar, að efla frið og manneskjuleg kynni milli þjóða og samfélagshópa. Skiptinemastarfsemin fer fram milli tveggja rótarýumdæma, sínu í hvoru landinu, en R.I. er að sjálfsögðu bakhjarl.

Rótarý gengst einnig fyrir skiptum á unglingum milli heimila um mánaðartíma að sumrinu og hefur R.H. haft góða reynslu af þeirri starfsemi.

Þegar haldnir eru fundir vikulega árið um kring er að vonum nokkur hætta á að vanafestu gæti í störfum. Þótt skipt sé um stjórn árlega um mánaðamótin júní-júlí er ekki nema eðlilegt að starfshættir séu svipaðir frá ári til árs. Samt eru alltaf einhver viðbrögð forseta til að breyta til og fitja upp á nýju. Svokölluð þriggja mínútna erindi tíðkast víða í rótarýklúbbum og eru þau flutt meðan á máltíð stendur. Flytjendur hafa frjálst val um efni en oft er þá rætt um innra starf rótarýs. Eins geta menn sem best rætt um daginn og veginn og ekki skemmir að slegið sé á léttari strengi.

Þegar Gísli Guðmundsson varð forseti 1. júlí 1977 mælti hann svo fyrir að þriggja mínútna erindi skyldu haldin reglulega og ekki nóg með það heldur skyldu þau skráð og flutt úr sérstakri bók. Þessi bók nefndist Járnsíða, vafalaust til að minna á starfsgrein forsetans, járnsmíðina. Þetta varð all fyrirferðarmikil bók með tímanum og kennir í henni margra grasa.

Segja má að á tímabilinu sem hér um ræðir hafi ákveðnar venjur verið festar í sessi. Má þar nefna hátíðlegan kvöldfund sem næst jólum þegar eiginkonur og vildargestir voru boðnir til veislu og sona- og dætrafund sem jafnan er öðru hvoru megin við nýárið. Þá er fjölmennt á fund með börn og barnabörn og ýmislegt gert þeim til skemmtunar. Þessir fjölskyldufundir hafa verið fastir liðir í klúbbstarfinu frá þessum árum. Hafa þeir verið þáttur í að kynna og tengja klúbbinn fjölskyldunni.

Þótt ekki sé beinlínis til þess ætlast að rótarý taki þátt í samskotum eða láti af hendi rakna fjárframlög til einstakra atvika eða styrki einstaklinga má all víða sjá í fundargerðum þessa tímabils að brugðið hefur verið við stöku sinnum þegar minnst hefur verið á fjárþörf og váleg tillfelli.

Þar má sjá að rétt er hjálparhönd lamaðri telpu, vietnamiskum flóttamönnum, kirkju í byggingu og til kaupa á röntgentækjum á St. Jósefsspítala. Þetta er sama sagan um allan heim; rótarýklúbbar komast ekki hjá að efna til samskota í einstökum tilfellum eða rétta einstaklingum í nauðum hjálparhönd.

Af þessum rótum er sprottin sagan um gömlu konuna og drottin. Hún gerðist í litlum bæ vestur í Bandaríkjum. Einn daginn þegar póstmeistarinn er að fara í gegnum frímerktan póst kemur upp í hendur hans bréf með þessari utanáskrift: Til Drottins allsherjar í Himnaríki.

Póstmeistarinn var ráðalaus; hvað skyldi gert við þetta bréf? Hann var rótarýfélagi og ákvað að taka bréfið með sér á fund og ráðgast um það við félagana. Þeir verða sammála um að sjálfsagt sé að opna bréfið og gá hvers kyns er.

Efni bréfsins er ákall gamallar konu í bænum, einbúa í gömlu húsi, til drottins um að hann sendi henni 100 dollara sem fyrst; hún þurfi nauðsynlega á peningum að halda. Rótarýfélagarnir bregðast fljótt við og þótt fámennir séu safna þeir saman 50 dollurum sem þeir fela póstmeistaranum að koma til gömlu konunnar með kveðju frá félögunum í rótarýklúbbnum. Póstmeistari gerir þetta, sendir gömlu konunni bréf með peningum og kveðju guðs og þeirra félaga.

Nokkrum dögum seinna kemur aftur bréf með utanáskriftinni Til Drottins allsherjar í Himnaríki. Póstmeistari þykist vita hver sendandi er, opnar bréfið og les. Gamla konan þakkar drottni fljóta og góða bænheyrslu og fegin vildi hún eiga hann að seinna ef þörf krefði. „En Drottinn góður, ég ætla að biðja þig að senda peningana ekki í gegnum hendur karlanna í rótarýklúbbnum. Þeir hirða nefnilega helminginn!“

R.H. var stundum stórtækur þegar um var að ræða sérstök verkefni eða átök af hálfu rótarýhreyfingarinnar, annað tveggja R.I. eða íslenska umdæmisins. Þá var gripið til Framkvæmdasjóðsins eða Jólamerkjasjóðsins eins og Beinteinn Bjarnason vildi kalla hann. Áður hefur hlutur Beinteins verið rakinn í útgáfu jólamerkjanna og ávöxtun teknanna. Hann var einnig örlátur í veitingu framlaga úr sjóðnum ef svo bar undir. Á fundi 7. nóvember 1977 gerði hann grein fyrir eignum sjóðsins og gat þess um leið að með fengnum tilskildum leyfum hefði hann sent Rótarýsjóði R.I. 287,611 kr og 462 dollara að auki til að staða R.H. hjá sjóðnum væri yfir 2000%!

Jón Gunnlaugsson héraðslæknir á Seltjarnarnesi var umdæmisstjóri 1980-81. Hann beitti sér mjög fyrir því að Nesstofa yrði safn, eins og raunar varð, og hét á rótarýfélaga að leggja því framtaki lið. Af þessum sökum var samþykkt á fundi í R.H. 21. febrúar 1980 að veita kr. 250.000 til Nesstofu.

Árið 1984 voru 50 ár liðin frá því að Rótarýhreyfingin haslaði sér völl hér á landi, þegar Rótaryklúbbur Reykjavíkur var stofnaður 13. september. Þessa afmælis var minnst á veglegan hátt af Reykjavíkurklúbbnum og rótarýumdæminu. Þáttur í þessu afmælisminni var stofnun sérstaks Starfsgreinasjóðs rótarýs sem framvegis verðlaunaði sérstakt framlag einstaklings í hugsmíð, uppfinningu eða verkhyggni. Verðlaunaafhending af þessu tæi hefur verið hápunktur á lokahófi umdæmisþings síðastliðin 10 ár. Stofnfé kom frá öllum klúbbum landsins.

Framlag R.H. til Starfsgreinasjóðs var kr. 162,000 á árinu 1984.

Rótarýumdæmið gaf út sérstakt afmælisrit árið 1984. Nefndist það Rótarýhreyfingin á Íslandi 50 ára. Efni hennar er ágrip af sögu klúbbanna í landinu. Þeir nafnar Stefán Jónsson og Stefán Júlíusson tóku saman þáttinn um R.H.

Klúbbfélagar kunnu vel að meta árvekni og dugnað Beinteins Bjarnasonar í störfum hans fyrir jólamerkjaútgáfuna og umönnun teknanna af henni. Á árshátíð í október 1978 var hann sæmdur Paul Harrismerki og heiðursskjali samtakanna og var hann fyrsti íslenski rótarýfélaginn sem varð þess heiðurs aðnjótandi. Hann var einnig fyrsti heiðursfélagi R.H. Hann andaðist 4. febrúar l981.

Stundum var gripið til sérstakra ráðstafana til fjáröflunar í ákveðnu augnamiði. Þannig gáfu tveir listamenn klúbbsins, Gunnar Hjaltason og Sigurbjörn Kristinsson, málverk sem happdrættisvinninga á árshátíðinni í október 1977. Ágóði var á annað hundrað þúsund krónur. Skemmtinefnd afhenti stjórninni yfirleitt slíkan ágóða til ákveðinna verkefna eða þarfa utan klúbbs.

Í desember 1984 varð sú breyting á högum kúbbsins að skipt var um fundarstað. Voru fundir þá fluttir úr Skiphól í Gafl-Inn. Þar hafa fundir verið haldnir síðan, fyrstu mánuði á efri hæð en lengst af í aðalsalnum á neðri hæð.

R.H. hélt áfram að heimsækja aðra klúbba í þessum árum, ýmist á fundardegi þeirra eða með þátttöku í árshátíðum. Að sjálfsögðu voru margir félagar úr R.H. og gestir þeirra á afmælishátíð Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi á Hótel Sögu 13. september 1984.

Langmerkasta ferðalag klúbbsins var þó Færeyjaför í september 1985. Þetta var vikuferð og tóku þátt í henni ? manns, ? félagar, konur og venslafólk. Viðtökur í Færeyjum voru í einu orði sagt höfðinglegar. Var ferðast fram og aftur um eyjarnar, gist á fjórum stöðum, lengst á Hótel Borg í Þórshöfn. Rótarýfundir voru í báðum klúbbum eyjanna, í Klakksvík og í Þórshöfn.

Fundurinn í Þórshöfn var í raun hátíð enda töldu þeir félagar sig gestgjafana og leifðu ekki af. Hafnfirðingar höfðu sérstakan rútubíl og bílstjóra til afnota og fóru víða. Svo vel vildi til að forseti R.H. 1983-84 var Helgi Þórðarson verkfræðingur og vann hann að undirbúningi ferðarinnar og taldist fararstjóri. Kona hans er færeysk, Þorgerður Mortensen, og var ekki verra að hún var með í för.

Þorgerður Mortensen er frá Frodba á Suðurey. Þau eru mörg systkinin og víða dreifð. En þau halda við húsi foreldra sinna og ættmenn koma þangað í fríum til hvíldar og samveru. Þar hélt Þorgerður hópnum dýrlega síðdegisveislu. Voru þrjú systkinin veitendur, tvær systur, önnur frá Íslandi, hin frá Austurlöndum fjær, og bróðirinn Nils sem býr í Frodba og annast um fjölskylduhúsið. Þótt frábærar veislur væru víða, í Kirkjubæ, á hótelum og í heimahúsum, er þetta hlýlega og myndarlega boð Þorgerðar og systkina hennar í fjölskylduhúsinu á Frodba ekki síst eftirminnilegt.

Árshátíð klúbbsins 1986 var um leið 40 ára afmælishátíð.

Var hún í Skútunni við Dalshraun laugardaginn 11. október og var hin veglegasta á allan hátt. Var fundinum frá hádegi á fimmtudegi frestað til laugardagskvölds svo segja mátti að tvíhelgt væri. Forseti var þá Steingrímur Atlason, formaður skemmtinefndar Bjarnar Ingimarsson og veislustjóri Sigurður H. Guðmundsson. Hátíðargestir voru 134 talsins.

Hátíðin hófst á því að 8 nýir félagar voru teknir inn í klúbbinn. Aðalskemmtiatriðið var heimatilbúið, eins konar óperetta sem séra Sigurður hafði samið og klúbbfélagar fluttu. Auk þessa söngatriðis var mikill almennur söngur undir borðum. Ávörp voru mörg, m.a. flutti umdæmisstjóri Arnbjörn Kristinsson ræðu og forseti Rótarýklúbbs Reykjavíkur, Ármann Snævar.

Aðalræðu kvöldsins flutti Stefán Jónsson, eini lifandi stofnandi klúbbsins sem enn var áhugasamur félagi. Minntist hann stofnunar klúbbsins, starfs og athafna frá upphafi til þessa dags, ræddi inntakið í stefnu og starfi rótarýs og þau bætandi áhrif sem hreyfingin hefur á fólk og umhverfi. Sagðist hann eiga rótarýklúbbnum margt gott upp að inna, ekki síst góð kynni við fjölmarga menn nær og fjær. Færði hann klúbbnum og félögum sínum hugheilar heillaóskir og bað veislugesti hylla klúbbinn og rótarýhreyfinguna með húrra hrópi.

Ræða Stefáns var flutt af hlýju og krafti eins og hans var von og vísa. Áður hafði hann sýnt hugarþel sitt til klúbbsins með því að senda stjórninni all ríflega peningagjöf til ráðstöfunar í þágu góðra hluta.

Geta má þess í sambandi við þetta afmæli klúbbsins að fyrr á árinu höfðu söngstjórar klúbbsins, þeir nafnarnir Stefán Jónsson og Stefán Júlíusson, gefið klúbbnum 100 eintök nýrrar söngbókar. Er hún fjölrituð og heft í kápu, 80 blaðsíður með rúmlega 100 söngvum, 12x17 cm að stærð. Stefán Júlíusson tók bókina saman og sá um útgáfuna en Stefán Jónsson greiddi beinan kostnað.

Þessi söngbók hefur síðan verið eins konar kveðja frá afmælisárinu 1986.

Eftir inngöngu nýju félaganna á afmælishátíðinni var félagatalan 69 og hafði aldrei verið hærri.

 

V - Fimmti áratugurinn

Þegar litið er yfir sögu R.H. í heild verður ekki sagt að nein doðamerki eða deyfð finnist í athöfnum eða umræðum á fimmta áratugnum á starfsferlinum. Miklu fremur bar margt til tíðinda í sögu klúbbsins á þessum árum.

Fyrst skal þá nefna lýsistoppa sem fundust huldir jörð vestur á Bala í Garðahverfi. Töldu menn að hér væri um gersemi að ræða sem fyrr á árum, eða jafnvel öldum, hefðu spilað mikla rullu í lýsisgerð. Þetta voru uppmjó tréker eða toppar. Skoðanir voru skiptar um þessi ílát eða ástand þeirra, sumir sögðu þau heilleg og bestu sýnisgripi í Sjóminjasafni, aðrir töldu þau fúin og hálfmulin. Þá var þetta kveðið:

 

Ljótt er að heyra um lýsishorn
sem lágu djúpt í moldu:
Þau eru ekki aðeins forn
en einnig blönduð foldu!

 

Allt um það, kerin tvö voru keypt í ársbyrjun 1987 fyrir kr. 50,000 og afhent Sjóminjasafni með pompt og prakt á fundi, að þeim þó fjarverandi, og forstöðukona safnsins þakkaði fyrir þetta framlag til menningar.

Miklu lengri og meiri sögu átti útsýnisskífan á Ásfjalli. Þegar hún var komin á sinn stað og vígsluathöfn hafði farið fram 26.6.1987 voru fimmtán ár liðin frá því að fyrst var rætt um það í klúbbnum að hann ætti að beita sér fyrir því að koma upp útsýnisskífu á Ásfjalli. Málinu var hreyft öðru hvoru en úr framkvæmdum varð ekki fyrr en þetta ár að forseti klúbbsins, Steingrímur Atlason, fékk nokkra vaska drengi í lið með sér og verkið var unnið.

Þessir félagar voru auk forsetans: Jón Bergsson og Sigurbjörn Kristinsson, Gísli Guðmundsson, Hjalti Jóhannsson, Einar Ágústsson og Gunnar Hjaltason. Gunnar heit. Ágústsson hafði einnig liðsinnt í þessum efnum. Lögðu þeir allir fram góð ráð, mikla vinnu og fagþekkingu án þess að ætlast til launa. Útlagður kostnaður við verkið varð þó um 100 þúsund krónur og kom í hlut klúbbsins að greiða hann.

Loks stóðu 14 manns á Ásfjalli við vígslu skífunnar 26. júní 1987. Forseti og Jón Bergsson röktu sögu framkvæmda og veðurguðir sáu um hressilega vatnsskírn því að regn bókstaflega hvolfdist úr loftinu. Vígsluskálina hafði forseti í fórum sínum og þótti mönnum ekki vanþörf á. Þegar menn bergðu á veigunum reyndust þær vera íslensk mysa. Sló þá þögn á mannskapinn!

Árið 1987 hlaut Hafnfirðingur styrk til framhaldsnáms úr Rótarýsjóðnum. Þessi styrkur hefur verið nefndur kandidatsstyrkur eða sérfræðistyrkur. Rannveig Traustadóttir fékk styrkinn til framhaldsnáms í kennslu og rannsóknum í þroskaþjálfun við háskólann í Syracuse í Bandaríkjunu. Hún sagði frá dvöl sinni, námi og rannsóknum á fundi í R.H. eftir ársdvöl vestra en hún lauk doktorsprófi í greininni síðar. Lét hún hið besta af námi og störfum og kynnum við rótarýfélaga og taldi að styrkurinn næmi hátt í milljón íslendra króna.

Þessir stóru námsstyrkir hafa verið kjörverkefni Rótarýsjóðsins til handa úrvalsnemendum í hálfa öld. Um 40 íslenskir kandidatar hafa fengið slíkan styrk og eru þeir nú að störfum vítt og breitt um þjóðlífið, í viðskiptum, háskólskennslu, vísindum og listum. Er auðreiknað hvað miklir fjármunir þjóðfélaginu hafa hlotnast á þennan hátt.

Á þessu rótarýári, afmælisári R.H. 1996, eru um 1270 framhaldsnemar við nám á þessum styrk í um 60 löndum og frá 65 þjóðum og er 20 milljónum dollara varið til verkefnisins. En frá því að byrjað var að veita þessa styrki, fyrir 50 árum, hafa styrkveitingar verið um 29.500 og heildarupphæðin nær 320 milljón dollarar.

Þetta er rakið hér vegna þess að R.H. hefur jafnan staðið sig vel gagnvart Rótarýsjóðnum en veigurinn í tekjum hans eru framlög hvers og eins rótarýfélaga vítt og breitt um heimsbyggðina.

Ekki verður framhjá því gengið að minnast á annað megin- verkefni Rótarýsjóðsins sem staðið hefur megnið af 5. áratugi starfsferils R.H. Það er hið svokallaða pólíóplúsframtak.

Pólíó merkir lömunar- eða mænuveiki - og Rótarýhreyfingin strengdi þess heit á árinu 1985 að vinna að því af fremsta megni að stemma stigu við veikinni með því að bólusetja börn í þróunarlöndum gegn mænusótt og öðrum smitsjúkdómum. Skyldi miða að því að á 100 ára afmæli Rótarýhreyfingarinnar, árið 2005, hefði bólusetningin útrýmt smiti veikinnar. Á árinu 1996 eru 150 lönd orðin smit frí. Hundruðum þúsunda dollara hefur verið varið til verkefnisins, fyrir utan sjálfboðavinnu lækna og annars heilbrigðisþjónustufólks í hreyfingunni. Verkefnið er enn í fullum gangi.

R.H. hefur lagt þessu viðfangsefni rösklegt lið og nægir að benda á að aðgöngumiðar á lokahóf umdæmisþings árið 1988, þegar klúbburinn hafði veg og vanda af þinginu, voru happdrættismiðar og skyldi afrakstri varið til pólíóplússöfnunarinnar. Fjórir listamenn í klúbbnum höfðu gefið málverk sem happdrættisvinninga. Eftir hátíðina afhenti formaður undirbúningsnefndar hátt í hundrað þúsund krónur í pólíósöfnun Rótarýsjóðsins.

Hér er þá tilefni til að geta um eina höfuðtekjulind Rótarýsjóðsins, sölu á Paul Harrismerkjum ásamt heiðursskjali sem þeim fylgir.

Eftir lát stofnanda Rótarýhreyfingarinnar, Paul Harris árið 1947, kom fram sú tillaga að heiðra minningu hans með því að efla Rótarýsjóðinn á sérstakan hátt sem tengdist lífi hans og starfi. Paul Harris lét sér alla tíð mjög annt um alþjóðaþjónustu og baráttu fyrir friði. Samþykkt var að gera sérstakt merki með mynd af Paul Harris og skyldi fylgja því heiðursskjal. Ætlunin var að klúbbar heiðruðu valda félaga sína með veitingu þessa merkis en það kostaði 1000 kr. í Rótarýsjóðinn. Seinna varð félögum heimilt að kaupa sér þessa virðingu sjálfir en íslenska rótarýumdæmið hefur ekki viðurkennt það fyrirkomulag í raun.

Á 50 ára afmælisdegi R.H. mun klúbburinn hafa heiðrað 20 félaga, lífs eða liðna, með því að gera þá að Paul Harris félögum og varið til þess 20.000 dollurum eða hátt í 1.5 milljón íslenskra króna á núgildi. Hefur þetta verið greitt í Rótarýsjóðinn, ýmist til styrkveitinga eða í pólíóplússöfnunina.

Framkvæmdasjóður klúbbsins hefur lagt fram drýgstan skerf af þessu fé og aðaltekjurnar hafa komið frá jólamerkjaútgáfunni. Áður hefur hlutur Beinteins heit. Bjarnasonar verið rakinn í þessum skrifum. Þó hefur þess ekki verið getið að í raun valdi hann eftirmann sinn við sjóðinn áður en hann var allur. Síðustu árin hafði hann sér við hlið Trausta Ó. Lárusson og varð hann formaður sjóðsstjórnar og framkvæmdastjóri jólamerkjaútgáfunnar þegar Beinteins naut ekki lengur við og hefur verið það síðan. Hann hefur haft góða félaga með sér í stjórninni en störfin hafa að langmestu leyti hvílt á hans herðum. Vert er að geta þess um leið að allir myndlistarmennirnir í klúbbnum, þeir félagarnir Bjarni Jónsson, Gunnar Hjaltason, Niels Árnason og Sigurbjörn Kristinsson, hafa lagt til myndir á jólamerkin, að sjálfsögðu að kostnaðarlausu.

Sá háttur er á hafður á árshátíðum að fyrst er haldinn stuttur fundur en síðan afhendir forseti klúbbsins veislustjóranum samkvæmið. Á árshátíðinni 10. október 1987 urðu þeir vinirnir Jón Kr. Gunnarsson forseti og Einar Sveinsson veislustjóri ekki alveg ásáttir um hverjum bæri hvað. Þótti veislustjóra forsetinn helst til fjölþreifinn um sína þætti. Þá kvað séra Sigurður:

 

Jón forseti hreifur og orðhvatur stóð hér á storð
og stýrði fundi án þess í nokkru að bila.
Svo málglaður var hann að ekki var eftir eitt orð
sem Einar hefði þurft að koma til skila.

 

Á þessu skeiði var röðin komin að R.H. að gera tillögu um umdæmisstjóraefni og fyrir valinu varð Stefán Júlíusson. Hann var fjórði umdæmisstjórinn úr R.H. en sá fertugasti í röðinni frá upphafi. Umdæmisstjóraár hans var 1987-88. Eins og áður stóð klúbburinn traustur og öruggur að baki þessum fulltrúa sínum, létti honum störfin og sýndi áhuga og kostgæfni í samstarfi við hann. Félagar fjölmenntu á umdæmisþing þegar hann tók við og eins á þingið þegar hann skilaði af sér. Bæði þessi þing voru haldin í Hótel Örk í Hveragerði og leigðu félagar sér rútu tl fararinnar. Eins og venja er sá klúbburinn um þingið þegar umdæmisstjóri skilaði af sér. Sérstök undirbúningsnefnd skipulagði og sá um þingið 1988 og var Albert Kristinsson formaður hennar. Hann var einnig formaður undirbúningsnefndar fyrir þingið árið 1975. Öll nefndin vann störf sín af sérstakri kostgæfni og var klúbbnum og umdæmisstjóra til mikils sóma.

Umdæmisstjórastarf Stefáns Júlíussonar hafði þau eftirköst að hann var fenginn til að sjá um útgáfu á nýrri handbók fyrir íslensku rótarýklúbbana, eða nánast "skikkaður til þess" eins og hann komst sjálfur að orði. R.H. stóð þá enn traustur að baki félaga sínum og afhenti tekjur af lokahófi umdæmisþings, kr.100.000, til að létta undir með útgáfu handbókarinnar.

Á árinu 1990 var brotið blað í sögu R.H. þegar samþykkt var að taka á leigu skrifstofuhúsnæði á Bæjarhrauni 20. Það hafði lengi verið til ama að enginn fastur samastaður var fyrir skjöl og muni klúbbsins og erfitt um aðgang að eldri plöggum þegar á þurfti að halda. Sömuleiðis þótti hentugt að eiga góðan aðgang að fundarstað fyrir nefndir. Því var samþykkt á fundi 8. nóvember 1990 að taka á leigu húsnæði til reynslu, a.m.k. eitt ár.

Stofan var búin vönduðum og smekklegum húsgögnum og aðstöðu til hitunar. Framkvæmdasjóður og félagssjóður lögðu í sameiningu fé til húsbúnaðar og sumt var fengið að láni. Voru félagar yfirleitt ánægðir með aðstöðuna.

En þegar til kastanna kom reyndist þessi ráðstöfun ekki eins notadrjúg fyrir klúbbstarfið og ætlað hafði verið. Nefndir notuðu sér húsnæðið ekki sem skyldi og sem geymsla reyndist það of dýrt. Húsaleigan var um kr. 135 þúsund á ári og hún lagðist á félagsgjöldin sem jafnan eru tiltölulega há í rótarý vegna margvíslegra skyldugjalda. Að fenginni reynslu og vel athuguðu máli var því samþykkt í maí 1994 að segja húsnæðinu upp. Vélviljaðir klúbbfélar tóku að sér að skjóta skjólshúsi yfir eignir klúbbsins og húsgögn voru til sölu.

En þótt þetta húsnæði yrði klúbbnum ekki að þeim notum sem ætlast var til kom það rótarýhreyfingunni í landinu að góðu gagni um skeið og á því sitt rúm í hennar sögu. Í ársbyrjun 1992 hafði rótarýumdæmið selt gamalt húsnæði sitt og þurfti að rýma það um leið. Nýtt húsnæði sem það hafði fest kaup á var ekki tilbúið fyrr en eftir nokkra mánuði. Á meðan fékk umdæmið að nýta skrifstofupláss R.H. að Bæjarhrauni 20 og flutti því til Hafnarfjarðar um hálfs árs skeið.

R.H. tók ekki leigu fyrir afnot umdæmisins af skrifstofunni og þegar umdæmið tók nýja húsnæðið að Suðurlandsbraut 34 í notkun afhenti forseti R.H. umdæmisráði kr. 50 þúsund sem framlag klúbbsins til nýja húsnæðisins.

Allt frá upphafi hefur R.H. látið sér annt um skógrækt og farið árlega í gróðursetningu í sérstakan skógræktarreit. Síðustu árin hafa R.H. og Inner Wheel klúbburinn haft samvinnu um þetta verkefni og skógræktardagurinn verið árviss. Af sérstökum ástæðum hefur þessi atburður orðið merkilegri en áður.

Það er Hafnfirðingum kunnugt að fáir hafa lagt meira á sig í trjárækt og í raun lyft þar stærri Grettistökum en Jón Magnússon, kenndur við Skuld. Hann er nú á tíræðisaldri, fæddur 1902, en furðu hress og stálminnugur. Á umdæmisþinginu í Keflavík árið 1990 voru Jóni veitt verðlaunin úr Starfsgreinasjóði umdæmisins fyrir elju hans, dugnað og tilraunir í skógrækt á landspildu sinni ofan við Sléttuhlð og raunar einnig á lóð sinni heima í Lynghvammi.

Árið eftir samþykkti R.H. að gera Jón Magnússon að heiðursfélaga klúbbsins í virðingarskyni fyrir framtak hans í skógræktarmálum. Upp frá því hefur Jón boðið skógræktarfólki R.H. og Inner Wheel að heimsækja sig í skála sinn í gróðurreitnum mikla og fagra. Hús þetta reisti hann fyrir löngu og nefnir Smalaskála. Er hann höfðingi heim að sækja og hefur skógræktarför R.H. og Inner Wheel orðið að eins konar ævintýri eftir að Jón kom til sögu.

Alltaf annað slagið koma útlendingar í heimsókn til Hafnarfjarðar og þurfa á liðsinni eða leiðbeiningu R.H. að halda. Margir þeirra eru rótarýfélagar sem byggja á gestrisni klúbbsins.

Á þeim áratug sem hér um ræðir hafa þrír starfshópar verið á ferðinni, 5 manna hópur frá Ástralíu árið 1992, álíka hópur frá Hollandi 1994 og jafnstór hópur frá Bandaríkjunum 1996. Þessir hópar voru allir 2-3 sólarhringa á vegum R.H. og nutu gestrisni félaganna. Þeir mættu á klúbbfundi og sögðu frá heimkynnum sínum og lífsháttum. Í hópnum frá Bandaríkjunum voru 5 konur og langafi einnar þeirrar var Íslendingur! Verkefnið var eins og áður að kynna þeim fyrirtæki, atvinnu og lifnaðarháttu fólks hér.

Stundum koma boð um ferðalög ýmissa erlendra hópa og klúbburinn eða einstakir félagar beðnir að liðsinna þeim og leiðbeina. Norsk lúðrasveit var hér á ferð í júní 1987 og kom það í hlut Bjarnars Ingimarssonar að veita henni leiðsögn og beina. Sama máli gegnir um kirkjukór frá Grimsby sem var hér á ferð haustið 1995. Fararstjóri kórsins hafði tengsl við Björn Ólafsson forstjóra og tók hann á móti hópnum af myndarskap. Það er ekki óalgengt að leitað sé á náðir klúbbsins um fyrirgreiðslu af ýmsu tæi.

Nýjung í kynnisskiptum rótarýfélaga var heimsókn fimm kanadiskra hjóna sumarið 1992. Þau dvöldust hér á landi um .... vikna skeið og gistu hjá rótarýfélögum. Hér í bæ dvöldust þau í tvo sólarhringa, skoðuðu sig um, fóru í ferðalag um Suðurland og komu á fund í klúbbnum. Kveðjuhóf með gestunum var samfundur þeirra klúbba sem tekið höfðu á móti þeim, haldið í nýendurreistum Skíðaskálanum í Hveradölum. Var það hin besta hátíð. Það jók á ánægju heimsóknar þessara kanadisku hjóna að tvær konurnar voru af íslensku bergi brotnar. - Þetta var í forsetatíð Bjarnars Ingimarssonar.

Árið eftir guldu íslensk rótarýhjón heimsókn kanadisku hjónanna með för til Kanada. Einn félagi úr R.H. var þar í för ásamt konu sinni. Það var Guðlaugur Atlason og lýsti hann glæsilegum viðtökum félaganna í Kanada á klúbbfundum.

Sem að líkum lætur þurfti klúbburinn að sinna erlendum skiptinemum á margvíslegan hátt fyrir utan þá miklu þjónustu sem hinir eiginlegu fósturforeldrar þeirra lögðu af mörkum. Á þessu tímabili voru nokkrir skiptinemar frá Bandaríkjunum hér og íslenskum skiptinemum fjölgaði. Þeir voru í Bandaríkjunum og Kanada.

Þó að góðir íþróttamenn hafi verið félagar í R.H. gegnum árin hefur klúbburinn ekki beitt sér fyrir íþróttum eða efnt til móta í einstökum íþróttagreinum. Á seinni árum hafa þó nokkrir félagar stundað golf af áhuga og kappi. Þessir kylfingar í klúbbnum hafa tekið þátt í opnu golfkeppnimóti rótarýfélaga og stundum haft sigur.

Það var Rótarýklúbbur Keflavíkur sem árið 1987 bauð til fyrsta rótarýmótsins í golfi. Síðan hafa opin keppnismót verið haldin á vegum nágrannaklúbbanna við Faxaflóa á víxl. Hafa allmargir félagar R.H. verið þátttakendur í þeim. Guðmundur Friðrik Sigurðsson hefur verið aðalhvatamaður að þátttöku í þessu opna rótarýgolfmóti og hefur hann stundum komið með bikar á borð.

Ferðalög voru töluverð á þessum áratug á ferli R.H. Fljótt komst sá háttur á að samvinna varð milli klúbbsins og Inner Wheel um dagsferðir í langferðabíl. Farnar voru ferðir að vorinu á vegum kvennaklúbbsins, vestur um Breiðafjörð, Snæfellsnes, Borgarfjörð eða Suðurland. Ferðir R.H. voru frekar að sumri eða hausti. Þetta voru dagsferðir, stansað og borðað nesti um hádegi og síðdegi en kvöldverður snæddur á hóteli á heimleið. Allar þessar ferðir hafa tekist mæta vel, hvort sem þær voru undir stjórn karla- aða kvennaklúbbsins eða beggja til samans.

Einnig var á þessu tímabili haldið áfram að fara á fundi með öðrum rótarýklúbbum þegar tækifæri gafst til. Og á 2000. fundi R.H. var brotið í blað. Í stað þess að halda hátíðarfund tók 55 manna hópur, karlar og konur, sig saman og fóru í Þjóðleikhúsið til þess að gera sér dagamun.

Sérstök haustferð var farin á vegum R.H. laugardaginn 7. október 1995. Konur voru að sjálfsögðu með í þeirri ferð. Áfangastaðurinn var skáli á öræfum bak Skjaldbreiði og ekið eftir svonefndum raflínuvegi. Skálinn nefnist Karlaríki og er í eigu fjórtán Hafnfirðinga en sumir þeirra eru rótarýfélagar. Klúbbfundi á fimmtudegi hafði verið frestað og var nú settur að nýju þarna í Karlaríki og lokið eftir drykklanga stund. Skemmtinefnd var í forsvari eftir það og bar fram miklar veitingar af brauði og ölföngum. Svo var til ætlast að karlarnir önnuðust veitingar en þegar til átti að taka undu konur því ekki til lengdar og tóku rösklega til hendinni við framreiðslu. Þar var þetta kveðið:

 

Í Karlaríki konurnar
kunnu brátt á daginn svar
- vaskar tóku völdin.
Enginn veit þó um það hót
- enda er það sjálfsagt bót -
hvað verða kann á kvöldin.

 

Það gefur augaleið að á fimmtíu ára tímabili verða miklar breytingar á félagatali rótarýklúbbs. Félagar eru núna 71 og 3 heiðursfélagar að auki en alls hafa 155 menn gengið í klúbbinn. Af þeim eru 40 látnir en aðrir hafa horfið úr hópnum vegna brottflutnings, atvinnu eða annarra orsaka.

Þegar félagar eldast og hætta störfum eiga þeir erfiðara um vik að sækja vikulega fundi og gegna skyldum félagsskaparins. Því hefur sú samþykkt verið gerð að félagar ofan við sjötugs aldur greiði hálf félagsgjöld og eins hefur öldnum félögum verið gefinn kostur á að vera í tengslum við klúbbinn þótt þeir geti ekki rækt félagsstörfin og teljist ekki félagar. Nefnast þeir "aldraðir vinir rótarýs" og eru velkomnir á fund þegar þeir geta og eins er þeim boðið á fundi á tyllidögum og sérstökum hátíðum.

Það er eðlilegt að þess sjái stað á aldri félaga að klúbburinn hefur starfað í 50 ár. Því er gott til þess að vita að á síðustu misserum hefur um tugur nýrra félaga á aldrinum innan við fertugt gengið í klúbbinn. Þar er myndarlegur vaxtarbroddur Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar.

Members

Active members 72
- Men 61
- Ladies 11
Paul Harris Fellow 24
Club guests 0
Honorary members 2
Other contacts 1

Address

Kaplakriki

Sjónarhóll
220 Hafnarfjörður
Iceland

Contacts

  • Kolbrún Benediktsdóttir, forseti 2022-2023

    Kolbrún Benediktsdóttir, forseti 2022-2023

    send e-mail
  • Sigurður Björgvinsson, forseti 2021-2022

    Sigurður Björgvinsson, forseti 2021-2022

    send e-mail