Félagi okkar og vinur Þórður Helgason fyrrverandi framkvæmdastjóri lést á Sólvangi þriðjudaginn 25. desember s.l., 88 ára að aldri.
Þórður fæddist í Höfnum á Reykjanesi 4. október 1930. Eftirlifandi eiginkona Þórðar er Hulda Þórðardóttir og eignuðust þau 5 börn.
Smelltu á fyrirsögnina til að lesa meira.
Snemma fékk Þórður áhuga á vélum og ungur að árum byrjaði hann að keyra vélar í frystihúsinu í Höfnum, þar sem hann ólst upp.
Þórður fór fyrst á vertíð 17. ára gamall og var það á Hvalfjarðarsíld. Þórður aflaði sér snemma 1.000 hestafla vélstjóraréttinda, en vélstjóraréttindin voru á þeim tíma flokkuð eftir stærð véla í hestöflum talið.
Þórður og Gunnar Hermannsson stofnuðu útgerðarfélagið Eldborg hf. og fengu þeir fyrsta skipið Eldborg afhenta árið 1963, en þeir höfðu látið smíða skipið í Noregi. Gunnar var skipstjóri og Þórður vélstjóri. Eldborgin varð strax landsþekkt aflaskip.
Þeir félagar létu síðar smíða þrjú önnur skip, sem öll báru Eldborgar nafnið og urðu þau öll landsþekkt aflaskip. Tvö þau síðustu voru langt á undan sinni samtíð hvað stærð og tæknibúnað varðar.
Síðustu starfsár sín vann Þórður hjá Vélaverkstæði Jóhanns Ólafs hér í bæ.
Þórður gekk í Rótarýklúbb Hafnarfjarðar 6. desember 1984 og var hann fulltrúi fyrir starfsgreinina „fiskveiðar“.
Þórður sótti fundi klúbbsins reglulega. Gott var að fá sér sæti nálægt Þórði því hann var ætíð léttur í lund og hafði góða nærveru.
Þórður var gerður að heiðursfélaga klúbbsins 14. október 2017.
Við rótarýfélagar sendum Huldu, börnum og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Minningin um góðan dreng og rótarýfélaga lifir.
Kristján Stefánsson minntist Þórðar á fyrsta fundi klúbbsins í ár.