Bjarnar Ingimarsson – Minning

miðvikudagur, 16. febrúar 2022

SB


Góður rótarýfélagi okkar, Bjarnar Ingimarsson lést þann 24. janúar síðastliðinn. Hann var jarðsunginn í kyrrþey  2. febrúar sl. 

Bjarnar var fæddur þann 9. apríl 1935 og var á áttugasta og sjöunda aldursári er hann lést. Hann gekk til liðs við Rótarýklúbb Hafnarfjarðar  árið 1976, en starfsgrein hans var álframleiðsla. Hann starfaði lengst af sem fjármálastjóri hjá Ísal.   Bjarnar hafði lengsta veru núverandi félaga í klúbbnum, eða 46 ár þegar hann lést. Bjarnar var mikill rótarýmaður og var umhugað um framgang klúbbsins. Hann var mikils metinn meðal félag sinna í klúbbnum og hafði á sinni tíð gegnt flestum embættum innan klúbbsins, verið gjaldkeri 1988-89, verðandi forseti 1990-91 og forseti 1991-92. Bjarnar var jafnframt Paul Harris félagi.

Það er kannski lýsandi fyrir Bjarnar að hann hélt áfram að greiða félagsgjöldin þó hann væri hættur að mæta á fundi og vildi þannig leggja sitt af mörkum.

Við minnumst okkar góða félaga með söknuði og þökkum liðnar stundir um leið og við sendum fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.
Sigurður Björgvinsson, forseti Rótarýklúbbs Hafnarfjarðar.